Lokaþáttur þriðju þáttaraðar Succession var sýndur á sunnudagskvöld. Þættirnir eru af mörgum taldir þeir bestu í sjónvarpi um þessar mundir og jafnvel síðustu áratuga. Þetta er kolsvört tragikómedía, sem hægt er að líkja við harmleiki Shakespeare jafnt sem sápuóperuna Dynasty og gamanþættina Arrested Development.
Kristján Guðjónsson ræddi við Ingvar E. Sigurðsson í Lestinni á Rás 1.
Ingvar E. Sigurðsson kynntist aðferðafræði Jeremy Strong, leikara sem fer með eitt aðalhlutverka í HBO-þáttaröðinni Succession, þegar hann lék íslenskan almannatengil í þáttunum. Strong, sem sökkvir sér í hlutverkin sem hann tekur að sér, hefur verið á milli tannanna á fólki fyrir að lifa sig um of inn í hlutverk persónunnar Kendall Roy.
Hér verður ekkert gefið upp um helstu vendingar í lokaþættinum en í aðdraganda hans vakti nærmynd af einum aðalleikaranna, Jeremy Strong, í New Yorker nokkra athygli. Í greininni er sagt frá aðferðafræði leikarans sem sækir í brunn method-leikara eins og Daniel Day-Lewis og Dustin Hoffman og lifir bókstaflega hlutverkið á meðan tökum stendur, samleikurum ekki alltaf til ómældrar ánægju.
Í greininni segir að Strong, sem fer með hlutverk Kendall Roy, sonar valdamikils fjölmiðlajöfurs, neiti oft að æfa fyrir atriði, þrátt fyrir óskir meðleikara hans um annað. Þar er haft eftir honum að hann vilji að hvert einasta atriði sé eins og hann rekist óvænt á björn í skógi.
Áður en blaðamaðurinn tók viðtöl við samleikara hans varaði Strong hann við, hann sagðist efast um hversu vinsælar aðferðir hans væru á meðal þeirra. Kieran Culkin, sem leikur yngri bróður Kendalls, fór fínt í hlutina.
„Það er erfitt að lýsa ferlinu hans, því ég sé það í raun aldrei. Hann lokar sig af.”
Skemmtileg áskorun að mæta leikaranum
Í það minnsta einn Íslendingur hefur leikið á móti Jeremy Strong. Það er Ingvar E. Sigurðsson sem lék í fyrsta þætti annarrar seríu Succession og var tekinn upp hér á landi, meðal annars í Útvarpshúsinu.
Ingvar lék Ragnar Magnússon almannatengil sem vinnur fyrir fjölmiðlakónginn Logan Roy. Hann sækir og ræðir við Kendall sem er í endurhæfingu á Íslandi og fær hann til að mæta í sjónvarpsviðtal til að bjarga eignarhaldi föðurins á fjölmiðlafyrirtæki fjölskyldunnar. Ingvar segist ekki hafa þekkt leikarann þangað til að hann fór að undirbúa sig fyrir hlutverkið.
„Ég hlakkaði til að leika á móti honum. Það var síðan ánægjulegt og mjög sérstakt að leika á móti honum. Ég sá hann ekkert fyrr en við hittumst í fyrstu senunni,“ segir Ingvar í viðtali í Lestinni á Rás 1.
„Ég ætlaði náttúrulega að heilsa honum og kynnast honum aðeins, eins og við leikarar gerum yfirleitt, við mátum okkur við hvert annað og förum kannski yfir línurnar og tölum aðeins saman. En hann vildi ekki tala við mig og vildi ekki heilsa mér. Þannig að fyrstu kynni okkar eru í karakter.“
Og þannig gekk vinnan fyrir sig þá tvo daga sem Ingvar var í tökum á þættinum.
„Hann talaði aldrei við mig nema í karakter. Ekkert utan eða milli sena. Mér fannst þetta í rauninni bara skemmtilegt. Ef ég væri ungur og óreyndur þá hefði þetta kannski komið mér út af laginu vegna þess að hann var með alls konar stæla líka. En mér fannst þetta skemmtileg áskorun. Meira að segja leikstjórinn kom til mín og afsakaði hann, hann væri svolítið „methody“. Ég sagðist bara virða það og hans aðferð.“
Einhverjir gætu upplifað það hvernig Jeremy Strong kemur fram við samstarfsfólk sitt sem hroka eða dónaskap og segist Ingvar skilja það vel.
„En hann hugsar þetta bara sem sína aðferð og svo var hann hinn ljúfasti þegar við vorum búnir, hann þakkaði mér mikið fyrir og ég honum.“
Hann vonar að method-leikurinn svokallaði sé á undanhaldi, þó afraksturinn geti verið skemmtilegur.
„Menn eru kannski að búa til goðsögn um sjálfan sig, að fórnarkostnaðurinn hafi verið svo gífurlegur. Eins og Daniel Day-Lewis sem þakkaði konunni sinni fyrir að þola alla karakterana sem hann hefur leikið þegar hann tók við Óskarnum. Mér fannst það ekkert sérstakt. Það er erfitt að leika í bíómynd og það er alltaf fórn. Allir sem búa til bíómynd eða þætti leggja ýmislegt á sig. En þú þarft ekki að láta það bitna á konunni, einkalífinu eða samstarfsfélögum þínum. Það finnst mér svolítið skrýtið. Við erum að gera þetta saman.“
Hægt er að hlusta á þátt rásar 1 hér.