Þórhallur Heimisson prestur biðlar til íslensku þjóðarinnar að drekka sem allra minnst um jólin því það sé einfaldlega það versta sem við gerum börnunum okkar. Hann segir jólaneysluna hér á landi yfirþyrmandi. Sjálfur er Þórhallur að jafna sig eftir alvarlegt slys á gönguskíðum.
Þórhallur hefur verið búsettur í Svíþjóð undanfarin fimm ár og viðurkennir að hann sakni íslenska gamlárskvöldsins, mun frekar en íslensku jólanna. Íslenska jólastreitan sé alltof mikil að mati prestsins.
„Ég upplifi mig í milljónaborg þegar ég kem til Reykjavíkur frá Uppsala því hraðinn hér er svo mikill. Allt á að vera svo fullkomið um jólin en staðreyndin er sú að það er ekki hægt að kaupa hamingju fyrir peninga og neyslu,“ segir Þórhallur.
Þórhallur bendir á að hæsta skilnaðartíðnin hérlendis sé í janúar og september. Fólki hangi saman yfir jólin og sumarfríið en svo bresti stíflan. Ofan á allt bendir Þórhallur á að oft reyni fólk að flýja veruleikann með áfengisneyslu um hátíðirnar.
„Það versta sem við gerum börnunum okkar er drykkja sem fylgir oft hátíðisdögum. Jólin eru hátíð barnanna svo dæmi sé tekið. Besta jólagjöfin þeirra er ekki tölva eða nýtt sjónvarp heldur foreldrar sem gefa neyslunni frí og láta alveg vera að veita áfengi í öllu hátíðarborðhaldinu. Drykkja foreldra sem fer úr böndum um jól er eitt það versta sem börnin upplifa.“
Heimild: Lifðu núna.