Skáldsagan Merking eftir Fríðu Ísberg, hefur verið seld til 14 málsvæða. Fyrsta upplag Merkingar seldist upp hjá útgefanda, en bókin var snarlega endurprentuð í 1500 eintökum og henni komið í bókabúðir. Bókin vann Bóksalaverðlaunin 2021 auk þess að vera tilnefnd til Fjöruverðlaunanna. Fríða hefur áður gefið út ljóðabækurnar Slitförin og Leðurjakkaveður.
Að sögn Emblu Ýrar Teitsdóttur kynningarstjóra Forlagsins er um að ræða einstakan árangur fyrir íslenskan höfund með fyrsta skáldverk.
Hún segir Faber & Faber bókaforlagið vinna með stærstu nöfnum bókmenntaheimsins um þessar mundir. „Hún verður þarna innan um stærstu nöfn í heimi.“
„Þetta er gígantískur árangur fyrir fyrstu skáldsögu hjá höfundi.“ Embla segir í samtali við Fréttablaðið að útskýra megi árangurinn með efnistökunum, sem eiga sérstakt erindi við samtímann, og ekki bara hérlendis.
„Þetta er klárlega það, að hún talar svo mikið inn í samtímann um slaufunarmenningu. Hún er að taka þetta skref, að takast á við það. Þetta á erindi við allan vesturheiminn í augnablikinu.“
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Forlaginu. Breski bókaútgefandinn Faber & Faber keypti réttinn í Bretlandi, en fyrirtækið var stofnað árið 1929 og gefur út bækur margra fremstu rithöfunda heims, á borð við Milan Kundera, Sally Rooney og Kazuo Ishiguro.
Fyrsta skáldsaga Fríðu Ísberg seld til fimm landa.