Föstudagur 22. nóvember, 2024
-3.7 C
Reykjavik

Bólusett Ingibjörg Dögg með Covid í annað sinn: „Hélt í vonina um að þetta væri misskilningur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég get víst ekki afneitað þessu lengur, ég er komin með Covid í annað sinn,“ skrifar Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Stundarinnar, sem sýktist af kórónuveirunni í annað sinn. Ingibjörg skrifar langan pistil um málið og útskýrir það hvernig það gat gerst að hún hefði veikst í annað sinn og það meira að segja tvíbólusett.

Með veiruna frá London

Þetta hófst með því að hún lagði leið sína til London með syni sínum.

„Daginn eftir síðasta lokaprófið hans flugum við út og áttum saman dýrðardaga. Langþráðan tíma saman, þar sem við gátum bara verið og notið lífsins. Á meðan við vorum úti var neyðarástandi lýst í London, en við urðum ekki mikið vör við það. Ekkert breyttist. Ekki eins og þegar ég var í Barcelona þegar útgöngubann skall á,“ skrifar hún.

Mæðginin fóru í sýnatöku, fylgdu sóttvarnarreglum, báru grímur, sprittuðu hendur og gættu fyllsta hreinlætis.
„En það dugði ekki til, ég kom með veiruna heim. Þar sem ég hef áður fengið covid, alltaf mælst með sterkt mótefni og hef farið í tvær bólusetningar var þetta skráð sem vafasmit og ég kölluð í frekari mælingar á Landspítalanum á fimmtudagsmorgun. Síðan fékk ég svörin, ég væri á einhverjum landamærum og skráð kannski með ómíkron í kerfinu en sérfræðingur ætti eftir að hringja í mig. Hann ætlaði að hringja á fimmtudag, föstudag og áðan átti ég von á símtali eftir smástund. Framan af hélt ég í vonina um að þetta væri misskilningur og ég myndi losna úr einangrun, en var farin að sættast við tilhugsunina um að svona væri þetta bara þegar staðfestingin barst loks endanlega rétt í þessu. Ég er víst ein af sirka þrjátíu sem hafa smitast aftur,“ skrifar Ingibjörg Dögg sem þarf að líkindum að eyða jólunum í einangrun frá sínum nánustu og öllum öðrum.

„Ég er í einangrun og verð í einangrun og veit ekki hversu lengi, líklega fram yfir jól er mér sagt en það verður að skýrast með tímanum. Sérfræðingurinn bauð mér að koma aftur á miðvikudag til að mæla mótefni í blóðinu, svo hver veit, kannski verð ég laus fyrir jól, kannski ekki. Starfsmenn Landspítalans hafa allavega lofað að mér verði aldrei aftur haldið í einangrun í 28 daga og segja að hér hafi margt lærst á þeim tíma sem er liðinn frá því að ég veiktist í fyrra“.

Jólaskinkan er allavega komin í pækil

Ingibjörg Dögg hrósar happi yfir því að aðstæður hennar eru breyttar frá því hún var innilokuð alein í rúmlega 20 daga eftir fyrra smitið. „Nú erum við búin að gera breytingar á aðstæðunum sem gera mér kleift að standa upp, vera líka inni í stofu og stíga út til að anda að mér fersku lofti án þess að þurfa að hafa áhyggjur af öðrum heimilismeðlimum sem eru hér í sóttkví. Ég er ekki ein og það munar mestu um það. Það er merkilegt hvað það getur verið gott að finna fyrir nærveru annarra í húsinu, heyra í börnunum og geta jafnvel spjallað aðeins saman á milli rýma. Þannig að þrátt fyrir allt verður þetta kannski bara heilandi reynsla. Ég finn allavega fyrir djúpstæðu þakklæti fyrir hvað líf mitt hefur breyst til betri vegar frá því að ég var síðast í sömu aðstæðum“.

- Auglýsing -

Hún mun taka því sem að höndum ber en fagna því að fjölskylda hennar verður frjáls úr sóttkví á næstu dögum.
„Börnin og Jón losna úr sóttkví í vikunni. Svo koma jólin og þau verða eins og þau verða. Jólaskinkan er allavega komin í pækil og tilbúin til matreiðslu þegar ég verð tilbúin til að elda. Hún verður alveg jafn góð nokkrum dögum síðar“.

Pistill Ingibjargar í heild sinni:

Ég get víst ekki afneitað þessu lengur, ég er komin með Covid í annað sinn. Þetta gerðist þannig að ég lá uppi í rúmi með mígreni þegar sonur minn læddist inn, sagðist vera búinn að finna hræódýrt flug fyrir okkur til London og spurði hvort hann mætti bjóða mér út. Þar sem ég hef ekki átt tíma ein með honum í marga marga marga mánuði svaraði ég án þess að hugsa: Ef þú borgar flugið skal ég borga hótelið. Korteri seinna var þetta frágengið og búið að panta miða í leikhús úti.

Daginn eftir síðasta lokaprófið hans flugum við út og áttum saman dýrðardaga. Langþráðan tíma saman, þar sem við gátum bara verið og notið lífsins. Á meðan við vorum úti var neyðarástandi lýst í London, en við urðum ekki mikið vör við það. Ekkert breyttist. Ekki eins og þegar ég var í Barcelona þegar útgöngubann skall á. Þannig að við röltum um borgina, fórum á söfn, í leikhús og á jólamarkaði, dáðumst að jólaljósunum og gleðinni sem sveif yfir vötnum alls staðar þar sem við komum (nema þegar við heyrðum vinkonur rífast um strák úti á götu og mættum ungum manni í annarlegu ástandi sem gerði sig líklegan til að ráðast á Lúkas), og hlógum með eða að fólkinu sem brast í dans hér og þar og alls staðar. Við sáum miðaldra konur dansa eftir götunum, allskonar fólk bresta skyndilega í hópdans á horninu, föður dansa við dóttur sína í fatabúð og veikan mann dansa á veitingahúsi um leið og hann gerði sig líklegan við konu í flegnum kjól með akkeri flúrað á annað brjóstið. Hún var þarna með kærastanum sínum en tók svo fallega á móti þessum manni að hann bara brosti og hélt áfram að dansa, út af staðnum og inn í nóttina. Lúkas eyddi sumarlaununum í fatabúðum og sýndi mér mikla biðlund í bókabúðum og á endanum komum við bæði hlaðin bókum heim, sem sætti furðu því hver kaupir jú bækur nú til dags og hvað þá burðast með þær á milli landa þegar það er hægt að fá allt á netinu. (Kannski er meira af ömmu minni í mér en ég vil viðurkenna en hún fyllti ferðatöskur af rúgbrauði og bókum.)
Við fórum í sýnatöku, fylgdum sóttvarnarreglum, bárum grímur, sprittuðum hendurnar og gættum fyllsta hreinlætis en það dugði ekki til, ég kom með veiruna heim.
Þar sem ég hef áður fengið covid, alltaf mælst með sterkt mótefni og hef farið í tvær bólusetningar var þetta skráð sem vafasmit og ég kölluð í frekari mælingar á Landspítalanum á fimmtudagsmorgun. Síðan fékk ég svörin, ég væri á einhverjum landamærum og skráð kannski með ómíkron í kerfinu en sérfræðingur ætti eftir að hringja í mig. Hann ætlaði að hringja á fimmtudag, föstudag og áðan átti ég von á símtali eftir smástund. Framan af hélt ég í vonina um að þetta væri misskilningur og ég myndi losna úr einangrun, en var farin að sættast við tilhugsunina um að svona væri þetta bara þegar staðfestingin barst loks endanlega rétt í þessu. Ég er víst ein af sirka þrjátíu sem hafa smitast aftur.
Ég er í einangrun og verð í einangrun og veit ekki hversu lengi, líklega fram yfir jól er mér sagt en það verður að skýrast með tímanum. Sérfræðingurinn bauð mér að koma aftur á miðvikudag til að mæla mótefni í blóðinu, svo hver veit, kannski verð ég laus fyrir jól, kannski ekki. Starfsmenn Landspítalans hafa allavega lofað að mér verði aldrei aftur haldið í einangrun í 28 daga og segja að hér hafi margt lærst á þeim tíma sem er liðinn frá því að ég veiktist í fyrra. Svo langvarandi einangrun tók samt sinn toll af mér og ég finn fyrir því núna. Eftir að hafa verið innilokuð inni í svefnherbergi í tvo sólarhringa fór ég bara að gráta, keyrði burt og slökkti á símanum. Á meðan gekk ölvaður ókunnugur maður inn í húsið og neitaði að fara þegar börnin reyndu að reka hann út.
Nú erum við búin að gera breytingar á aðstæðunum sem gera mér kleift að standa upp, vera líka inni í stofu og stíga út til að anda að mér fersku lofti án þess að þurfa að hafa áhyggjur af öðrum heimilismeðlimum sem eru hér í sóttkví. Ég er ekki ein og það munar mestu um það. Það er merkilegt hvað það getur verið gott að finna fyrir nærveru annarra í húsinu, heyra í börnunum og geta jafnvel spjallað aðeins saman á milli rýma. Þannig að þrátt fyrir allt verður þetta kannski bara heilandi reynsla. Ég finn allavega fyrir djúpstæðu þakklæti fyrir hvað líf mitt hefur breyst til betri vegar frá því að ég var síðast í sömu aðstæðum.
Börnin og Jón losna úr sóttkví í vikunni. Svo koma jólin og þau verða eins og þau verða. Jólaskinkan er allavega komin í pækil og tilbúin til matreiðslu þegar ég verð tilbúin til að elda. Hún verður alveg jafn góð nokkrum dögum síðar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -