Tilkynningar til lögreglu um heimilisofbeldi voru fleiri í nóvember en þær voru í október. Í október voru slíkar tilkynningar 58 en í nóvember 64 talsins.
Tilkynningar um heimilisofbeldi eru fleiri í ár samanborið við meðalfjölda síðustu þrjú árin. Það sem af er ári hafa borist um tíu prósent fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi en á sama tíma árin á undan.
Í nóvember voru 677 hegningarlagabrot skráð á höfuðborgarsvæðinu. Þeim fækkaði töluvert á milli mánaða; tilkynningar um heimilisofbeldi jukust; eitt af fáum hegningarlagabrotum þar sem tilkynningum fjölgaði.
Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir nóvember 2021.
Tilkynningum um ofbeldisbrot fækkaði á milli mánaða.
Í nóvember bárust alls 119 slíkar tilkynningar á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Tilkynningum um þjófnaði og innbrot fækkaði á milli mánaða; það sem af er ári hafa borist um átta prósent færri tilkynningar um innbrot en bárust að meðaltali á sama tímabili síðastliðin þrjú ár.
Skráðum fíkniefnabrotum fækkaði á milli mánaða. Tvö stórfelld fíkniefnabrot voru skráð í nóvember. Sömuleiðis fækkaði tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum áfengis eða annarra ávana- og fíkniefna.
Í nóvember bárust lögreglu níu beiðnir um leit að börnum og ungmennum. Þess konar beiðnum fækkaði örlítið á milli mánaða.
Tilkynningar um eignaspjöll voru töluvert færri í nóvember en þær voru í október. Tilkynningar um nytjastuld á vélknúnum ökutækjum fjölgaði hinsvegar lítillega á milli mánaða.
Í nóvember voru 719 umferðarlagabrot skráð, að hraðamyndavélum undanskyldum. Skráð umferðarlagabrot eru talsvert færri þetta árið en þau voru að meðaltali á sama tíma síðustu þrjú ár, eða um 26 prósent færri.