Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir mælis til þess að sóttvarnaaðgerðir verði hertar svo um munar en ríkisstjórnin fer yfir tillögur hans í fyrrmálið.
Samkvæmt Rúv leggur Þórólfur nú til að upp verði tekin 20 manna samkomutakmörkun og að grunn, framhalds og háskólar opni ekki aftur fyrr en 10 janúar. Þá verði 200 manna hólf skilgreind á fjöldasamkomum og verður þar neikvæðra hraðprófa krafist.
Gestafjöldi sundlauga og líkamsræktarstöðva minnkar um helming og þá verður afgreiðslutími styttur enn frekar á veitinga og skemmtistöðum. Einnig verður tveggja metra nálægðarregla tekin upp að nýju, í stað eins metra reglu nú.
Síðdegis í dag verður fjarfundur hjá ráðherranefnd um samræmingu aðgerða en þar verður farið yfir tillögur Þórólfs. Tilkynnt verður svo um framhald sóttvarnaaðgerða að loknum fundi ríkisstjórnarinnar fyrir hádegi á morgun.