Birgir Ármannsson, forseti Alþingis hefur verið greindur með Covid-19 smit.
Staðfestir Birgir þetta í samtali við mbl.is. Kveðst hann vera með týpísk flensueinkenni, hita og kvef.
„Ég hef verið að taka heimapróf og hraðpróf daglega frá því fyrir helgi, frá því smitið kom upp í þinginu. Svo í morgun var stór hópur þingmanna sem tók bæði hraðpróf og PCR-próf og þessi niðurstaða kom þá í ljós hjá mér. Ég hef ekki heyrt af öðrum smitum í dag,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.
Birgir er þannig annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem greinist með farsóttina undanfarna daga en alls hafa nú átta smitast á Alþingi síðustu vikuna. Í þokkabót hafa fjórir starfsmenn þingflokka greinst með veiruna.