Um klukkan 10.30, sunnudaginn 29. desember, 1996, bar til tíðinda að lík fannst við Krýsuvíkurveg, rétt utan Reykjanesbrautar. Var þar um að ræða Hlöðver S. Aðalsteinsson, 55 ára gamlan Hafnfirðing.
Það var deginum ljósara að dauða Hlöðvers hafði ekki borið að með eðlilegum hætti því á líkinu voru sár eftir haglaskot auk þess sem á því voru aðrir áverkar. Höglin höfðu tætt margar æðar svo mikið hafði blætt úr Hlöðver. Ýmislegt benti til þess að líkið hefði verið flutt á staðinn og komið fyrir skammt frá vegarkantinum.
Eftirgrennslan lögreglu leiddi í ljós að Hlöðver, sem var einhleypur og búsettur við Álfaskeið í Hafnarfirði, hafði farið að heiman um miðja nótt og lítið vitað um ferðir hans þaðan í frá þar til hann fannst látinn.
Þessar upplýsingar gaf bróðir Hlöðvers, Árni, en þeir bjuggu í sama húsi. Að sögn Árna var það ekki óvenjulegt, Hlöðver hafi farið að heima á svipuðum tíma sólarhringsins nokkrar síðustu helgar. Bifreið Hlöðvers fannst síðar þennan sunnudag á Herjólfsgötu í Hafnarfirði.
Þannig var mál með vexti að Hlöðver hafði verið sakaður um kynferðisofbeldi gegn ungum drengjum og því orðið fréttamatur. Nafn hans hafði verið birt í blöðum ásamt myndum af heimili hans. Af þeim sökum hafði hann sætt áreitni af ýmsu tagi og meðal annars oft og tíðum hringt í hann að næturlagi. Því var ekki talið ólíklegt að einhver sem taldi sig eiga harma að hefna hefði ráðið hann af dögum.
Samdægurs var ungur maður handtekinn í tengslum við rannsóknina. Þannig var mál með vexti að Hlöðver var með símnúmerabirti og fékkst staðfest að hringt hefði verið í hann af heimili þess unga manns um nóttina. Að auki fannst bréfsnepill á heimili Hlöðvers með nafni viðkomandi og símanúmeri.
Ungi maðurinn játaði hann á sig verknaðinn og að hans sögn hafði hann hringt í Hlöðver á sunnudagskvöldinu og um nóttina og farið þess á leit að Hlöðver sækti hann.
Sagðist hann hafa verið drukkinn og haft haglabyssu í fórum sínum þegar Hlöðver tók hann upp í bílinn. Þeir hafi síðan ekið sem leið lá út á Krýsuvíkurveg.
Þar hafi hann boðið Hlöðver birginn og talað um kynferðislegt ofbeldi sem hann hafði sætt af hálfu Hlöðvers tíu árum fyrr. Sagðist hann hafa reiðst þegar Hlöðver gerði lítið úr ofbeldinu og þeir hafi báðir farið út úr bifreiðinni meðan á samtalinu stóð.
Ungi maðurinn sagðist hafa beint haglabyssunni að Hlöðver en hugmyndin hafi verið að skjóta að honum en ekki á hann, svona til að ógna honum eða hræða hann. Hann hefði aldrei ætlað sér að bana honum.
En Hlöðver sneri sér um leið og skotið reið af með þeim afleiðingum að höglin lentu í upphandlegg hans. Hlöðver tók þá til fótanna, en banamaður hans sagðist hafa tekið bíl hans traustataki, ekið í Hafnarfjörð og skilið hann þar eftir.
Umræddur ungi maður fékk tíu ára dóm og var tekið tillit til forsögu hans og Hlöðvers. Enn fremur þótti sýnt að hann hefði ekki verið í andlegu jafnvægi þegar hann hleypti af haglabyssunni.
Þess ber að geta að þrátt fyrir að Hlöðver hefði verið ásakaður og kærður fyrir misnotkun á ungum drengjum hafði aldrei neitt alvarlegt sannast á hann.