Föstudagur 13. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

10 kvikmyndir til að hefja nýtt ár

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nú árið er liðið í aldanna skaut eins og skáldið sagði. Mér datt ekki í hug neitt snjallt að segja þannig að ég ákvað að slá aðeins um mig. Sem sagt, nú er nýtt ár að ganga í garð með nýjum áskorunum, nýjum augnablikum, minningum og sjálfsagt nýjum sóttvarnaraðgerðum. Nú þegar um 3% þjóðarinnar eru annaðhvort í sóttkví eða einangrun og restin í hátíðarkóma er tilvalið að hjálpa fólki við að starta nýju ári. Hér er listi yfir 10 kvikmyndir til byrja árið með stæl.

1. Amélie (Le fabuleux destin d’Amélie Poulain) (2001)

Er eitthvað betra en að byrja árið á krúttmynd allra krúttmynda? Þessi franska perla skaut hinni gullfallegu og hæfileikaríku leikkonu Audrey Tautou upp á stjörnuhimininn árið 2001 en hún hlaut 5 Óskarstilnefningar sem er óvenjulegt fyrir kvikmynd sem ekki er amerísk. Kvikmyndinni er leikstýrt af hinum frábæra Jean-Pierre Jeunet sem einnig er maðurinn á bak við gullmola eins og Delicatessen, City of Lost Children og svo Alien: Resurrection.
Myndin fjallar um draumórastelpuna Amélie sem ákveður að tileinka líf sitt því að hjálpa fólkinu í nærumhverfi hennar. Hún áttar sig svo á því að með því vanrækir hún sitt eigið líf og leit sinni að ástinni. Myndin er í senn fyndin, falleg og rómantísk, kjörin fyrir pör og rómantískar sálir. Til gamans má geta að Amélie er í 119 sæti yfir bestu kvikmyndir allra tíma á imdb.com.

2. Se7en (1995)

- Auglýsing -

Skiptum algjörlega um gír. Se7en er spennumynd allra spennumynda. Eftir að hún sló í gegn birtist aragrúi kvikmynda sem auglýstu sig sem „í anda Se7en“ en í raun voru það bara „wannabe“ Se7en. Hinn stórkostlegi leikstjóri David Fincher sló rækilega í gegn með þessari mynd en hún er aðeins önnur kvikmyndin sem hann leikstýrði (sú fyrsta var Alien 3!). Fram að henni hafði hann gert fjöldann allan af tónlistarmyndböndum fyrir listamenn eins og Madonnu, Iggi Pop og Billy Idol. Er hann einnig maðurinn á bak við snilldarkvikmyndir á borð við The Game, Fight Club, Zodiac og þættina Mind Hunter. Se7en kom eins og stormsveipur árið 1995 en hún fjallar um leit tveggja rannsóknarlögreglumanna að einum viðbjóðslegasta raðmorðingja kvikmyndasögunnar. Án þess að fara lengra í plottið get ég sagt að lokaatriði myndarinnar er eitt það allra besta í sögu kvikmyndanna. Leikarar myndarinnar eru alls ekki af verri endanum, þvert á móti; Brad Pitt, Morgan Freeman, Kevin Spacey og Gwyneth Paltrow. Se7en er númer 21 á lista imdb.com yfir bestu kvikmyndir allra tíma. Ekki fyrir viðkvæma!

3. Coco (2017)

- Auglýsing -

Já, ég veit, þetta er teiknimynd, en mér er sama. Að mínu mati er Coco besta teiknimyndin síðan Lion King kom út. Hún hefur allt, húmor, spennu, fegurð og frábært plott. Coco kom út árið 2017 og vann tvenn Óskarsverðlaun. Henni er leikstýrt af þeim Lee Unkrich og Adrian Molina. Myndin gerist í Mexíkó og fjallar um hinn gítaróða Miguel sem er ungur drengur með stóra drauma um að verða tónlistarmaður. En fjölskylda hans bannar alla tónlist vegna þess að langalangafi hans hafði tekið tónlistina fram yfir fjölskylduna á sínum tíma. Á degi hinna dauðu verður Miguel fyrir því óláni að fara yfir í handanheiminn (án þess þó að deyja) en hann kemst ekki til baka nema með hjálp langa langafa síns og Fridu Calo og fleiri íbúa handanheimsins. Það sem gerir þessa teiknimynd svo frábrugðna flestum öðrum teiknimyndum er söguþráðurinn. Hann er þéttur, bráðsnjall og ljúfsár og svo er frábært plott í lokin. Litafegurðin í henni skemmir einnig alls ekki fyrir sem og tónlistin sem er stórkostleg. Með aðalhlutverk fara Anthony Gonzales, Gael García Bernal, Benjamin Bratt og Alanna Ubach. Coco er númer 72 á lista imdb.com yfir bestu kvikmyndir sögunnar. Tilvalin fjölskyldumynd en þú getur líka horft á hana ein/n.

4. On the Waterfront (1954)

Hér er ein úr geymslunni. On the Waterfront er svolítið týndur fjársjóður, en hún kom, sá og sigraði á óskarsverðlaunahátíðinni árið 1955; kvikmyndin hlaut 8 verðlaun og er númer 183 á lista imdb.com. Ungur og upprennandi Marlon Brando hlaut fyrri Óskarinn sinn fyrir hlutverk sitt í myndinni. On the Waterfront segir söguna um Terry Malloy (Brando) sem er fyrrverandi boxstjarna og farinn að vinna á höfninni og baráttu hans við spillta verkalýðsforystu sem bróðir hans tilheyrir. Svo fer hann að falla fyrir syrgjandi systur eins af samstarfsmönnum sínum. Myndinni er leikstýrt af Elia Kazan sem er þekktastur fyrir kvikmyndir á borð við Gentlemen´s Agreement, A Streetcar named Desire, America America og East of Eden. Kvikmyndin er einstaklega vel leikin og söguþráðurinn stórgóður og eiginlega tímalaus, því enn þann dag í dag er fólkið á gólfinu að kljást við spillingu á toppnum. Marlon Brando fer á kostum í henni en einnig eru Lee J. Cobb, Karl Malden og Rob Steiger með hlutverk í myndinni. Stórgott val ef vel á að gera við sig.

5. 28 days later (2002)

Þessi skaut mér skelk í bringu í byrjun aldarinnar og gerir enn. Hinn eitursvali Cillian Murphy leikur hér ungan mann sem vaknar eftir að hafa legið í dái á spítala og heldur að hann sé eins og Palli, einn í heiminum. Götur London eru auðar og enginn virðist á svæðinu. En því miður fyrir hann er sú ekki raunin. Það sem ungi maðurinn veit ekki, er að á meðan hann lá í dái hefur dularfull veira farið yfir mannkynið á ógnarhraða. Einkennin eru ekkert ósvipuð þeim sem fólk finnur nú á Covid-tíma fyrir utan eitt smáatriði. Einkennin eru hiti, hausverkur, sviti, beinverkir og mannætu„tendensar“. Ungi maðurinn reynir hvað hann getur til að lifa af í nýjum veruleika með hjálp nokkurra sem hafa ekki enn fengið veiruna. Enginn annar en Danny Boyle leikstýrir þessari stórgóðu kvikmynd, en hann er hvað þekktastur fyrir myndirnar A Shallow Grave, Trainspotting, Sunshine, A Slumdog Millionaire, 128 Hours og Yesterday. Naomie Harris og Christopher Eccleston leika með Murphy og standa sig með prýði. Tilvalin mynd fyrir þá sem þurfa að koma blóðinu af stað.

6. Skytturnar (1987)

Ég verð nú að hafa að minnsta kosti eina íslenska kvikmynd með, er það ekki? Ég vil samt ekki benda fólki á týpískar kvikmyndir eins og Með allt á hreinu, Sódóma Reykjavík eða Englar alheimsins, sem allar eru stórkostlegar en svolítið útjaskaðar. Skytturnar er fyrsta kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar í fullri lengd, en aðrar þekktar kvikmyndir sem hann leikstýrir eru til að mynda Börn náttúrunnar, Bíódagar, Djöflaeyjan og Englar alheimsins. Í Skyttunum eru fylgst með tveimur minnipokamönnum, þeim Grími og Bubba, í einn dag, þar sem þeir fara á puttanum frá Hvalfirði þar sem þeir voru að vinna við hvalskurð, til Reykjavíkur þar sem þeir hyggjast mála bæinn blóðrauðan. Sagan er einföld en spennandi og hrynjandinn er fínn þar sem áhorfandinn fylgist með félögunum sökkva sífellt dýpra í vandræði. Aðalleikararnir eru þeir Þórarinn Óskar Þórarinsson og Eggert Guðmundsson en þeir smellpassa báðir í hlutverk félaganna. Atriðin í bílnum og á skemmtistaðnum eru óborganleg.

7. Eyes Wide Shut (1999)

Síðasta kvikmynd sénísins Stanleys Kubrick er hin furðulega Eyes Wide Shut og verð ég að segja að það finnst mér stórgóð kveðjugjöf leikstjórans til áhorfenda. Þetta er kannski ekki besta mynd Kubrick en þetta er sú kvikmynd eftir hann sem ég vil horfa á á fyrstu dögum nýs árs. Eyes Wide Shut er kynþokkafull, dularfull, skrítin og stríðin. Ég segi stríðin, því Kubrick tekst á frábæran máta að kitla áhorfendur með hálfgerðu loforði um kynlífssenu sem kannski aldrei verður. Hún fjallar sem sagt um lækninn William Harford, sem leikinn er af Tom nokkrum Cruise, sem fer á furðulegt ferðalag eina nótt á Manhattan, eftir að kona hans, sem leikin er af Nicole Kidman, segir honum frá fantasíu sinni þar sem hún gerir sér dælt við annan mann. Læknirinn kemst eftir flóknum leiðum inn í dularfullt kynlífspartí þar sem allir bera grímur (karnivalgrímur, ekki Covid-grímur) en þar eru engar fjarlægðartakmarkanir. Í partíinu lendir læknirinn í vondum málum en meira vil ég ekki segja. Aðrir leikarar sem vert er að nefna eru Todd Field, Sydney Pollack og Julienne Davis. Tilvalin kvikmynd fyrir Netflix- og Chill-stefnumót eða fyrir fólk sem hefur gaman af erótík og spennu í bland. Takið sérstaklega eftir tónlistinni í myndinni, hún er einföld en sterk.

8. The Rocky Horror Picture Show (1975)

Talandi um erótík og spennu, næst á listanum er költmynd allra költmynda, The Rocky Horror Picture Show. Áður en kvikmyndin var tekin upp var verkið sýnt á leiksviði víða undir sama nafni. Leikstjórinn Jim Sharman er þekktur ástralskur leikhúsleikstjóri og hefur í raun og veru ekki leikstýrt mörgum kvikmyndum og er Rocky Horror langvinsælasta myndin hans. Kvikmyndin kom út árið 1975 en sló þó ekki í gegn fyrr en tveimur árum síðar, leikurunum til óvæntrar gleði. Hefur kvikmyndin verið sýnd í svokölluðum miðnætursýningum í bíó, víðs vegar í Ameríku, sleitulaust í 43 ár. Leikaravalið er einstaklega gott en með aðalhlutverk fara Susan Sarandon, Barry Bostwick, Tim Curry, Meat Loaf, Nell Campell, Patricia Quinn, Jonathan Adams, Charles Gray og höfundur verksins, Richard O’Brien. Ég bara gat ekki valið á milli hlutverka. Myndin, sem er söngvamynd, er ástaróður til B-myndanna. Hið íhaldssama par, Brad og Janet, eru á leið til vinar síns þegar það springur á bílnum hjá þeim. Þau leita skjóls í kastala nokkrum í nágrenninu þar sem þau verða vitni að ýmsu misjöfnu og lenda í ævintýrum, ástar sem og öðrum. Óhætt er að segja að þessi kvikmynd eigi eftir verða áhorfendum minnisstæð langa, langa lengi (svo ég vitni í verkið sjálft). Lögin í myndinni er grípandi og textinn frábær. Húmorinn er einnig stórgóður í verkinu og svo eru skilaboðin svo falleg; „don´t dream it, be it“. Ekki fjölskyldumynd.

9. Memento (2000)

Áður en Christopher Nolan sló í gegn með The Dark Knight – Batman-myndunum gerði hann eina snilld sem virðist oft gleymast. Memento fjallar um mann, sem leikinn er af Guy Pierce, sem reynir að komast að því hver myrti konuna hans. Það er bara einn galli og það ekkert lítill galli. Hann hefur ekkert skammtímaminni. Hann verður því að treysta á minnismiða sem hann verður að skrifa á mjög reglulega yfir daginn. Þetta er öðruvísi „Whodunit“-kvikmynd svo ekki sé meira sagt, frumleikinn er allsráðandi og spennan í hámarki allan tímann. Svo er hún listavel leikin. Með önnur aðalhlutverk fara þau Carrie-Ann Moss og Joe Pantoliano. Myndin er númer 55 á lista imdb.com yfir bestu kvikmyndir sögunnar. Ég ábyrgist að þessi mynd mun slá í gegn hjá þér ef hún hefur hingað til farið fram hjá þér. Öfund!

10. 12 Angry Men (1954)

Síðasta myndin á lista mínum er þessi gamla, en stórgóða kvikmynd, 12 Angry Men sem leikstýrt var af Sidney Lumet sem er einnig þekktur fyrir myndir á borð við A Dog Day Afternoon, Serpico og Network. Myndir gerast vart einfaldari í umgjörð en hún gerist á einum degi í herbergi 12 manna kviðdóms í morðmáli. Allir nema einn þeirra eru á því að hinn meinti morðingi sé sekur, en það er þessi eini sem ekki gefur sig. Þeir verða sífellt reiðari við hann en þurfa svo að horfast í augu við rökin sem hann kemur með og smám saman fara fleiri að efast um sekt þess ásakaða. Ef þú elskar rökræður þá er þetta hin fullkomna mynd fyrir þig. Já, og leikurinn, maður minn! Það er erfitt að finna betur leiknar myndir en 12 Angry Men en í aðalhlutverkum eru þeir Henry Fonda, Lee J. Cobb, Martin Balsam og Jack Warden að öllum hinum kviðdómendum ólöstuðum. Myndin er hvorki meira né minna í 5. sæti lista imdb.com, geri aðrar betur! Já, reyndar gera fjórar aðrar myndir betur, en þessi er samt helvíti góð. Myndin var svo löngu síðar endurgerð, en bara ekki, ekki sjá hana. Góða skemmtun!

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -