Sigurdór Sigurdórsson, blaðamaður, fararstjóri og ástsæll söngvari, lést á Landspítalnum á öðrum degi jóla, 83 ára að aldri. Hann var fæddur á Akranesi 24. nóvember 1938.
Sigurdór er ekki þekktasti dægurlagasöngvari íslenskrar tónlistarsögu en hann söng hins vegar slagara sem allir hafa heyrt í hans meðförum og margir sungið með – Þórsmerkurljóð.
Sigurdór er fæddur og uppalinn á Akranesi en fluttist til Reykjavíkur á barns- eða unglingsaldri. Hann var átján ára gamall þegar hann hóf að koma fram opinberlega sem söngvari en þá hafði valið staðið annars vegar um söng- eða knattspyrnuferil hins vegar en hann þótti liðtækur knattspyrnumaður, hið fyrrnefnda varð ofan á því það gat gefið af sér þokkalegar tekjur sem íþróttirnar gerðu ekki.
Fyrstu opinberu samkomurnar sem Sigurdór söng á voru revíu- og kabarettsýningar, t.d. á vegum Íslenzkra tóna og fljótlega slóst hann í hóp ungra og efnilegra dægurlagasöngvara og söng m.a. á miðnæturskemmtunum í Austurbæjarbíói. Í kjölfarið hófst hinn eiginlegi söngferill þar sem hann söng með hljómsveitum eins og KK sextett, Hljómsveit Aage Lorange og Hljómsveit Svavars Gests en með síðast töldu sveitinni söng hann stórsmellinn um Maríu, Þórsmerkurljóð Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings sem kom út árið 1960 á tveggja laga plötu á vegum Íslenzkra tóna – það var svo endurútgefið ári síðar. Lagið sló í gegn og varð feikivinsælt í óskalagaþáttum Útvarpsins og Sigurdór þurfti að syngja það margsinnis hvert einasta kvöld á dansleikjum. Vart þarf að taka fram að lagið hefur komið út á ógrynni safnplatna.
Ungur flutti Sigurdór frá Akranesi til Reykjavíkur, þá eftir gagnfræðapróf frá Héraðsskólanum í Reykholti. Nam prentverk og lauk prófi í þeirri iðn árið 1961. Starfaði sem prentari næsta áratuginn og fór svo þegar fram liðu stundir að sinna íþróttafréttamennsku í ígripum. Árið 1970 gerðist Sigurdór blaðamaður á Þjóðviljanum og starfaði þar til ársins 1986. Færði sig þá yfir á DV og starfaði þar til 1997. Var blaðamaður á Degi 1997 til 2001 og eftir það til starfsloka á Bændablaðinu. Sem blaðamaður skrifaði Sigurdór mikið um pólitík, verkalýðsmál og sjávarútveg. Á öllum blöðunum, sem fyrr eru nefnd, var Sigurdór jafnframt með þætti með kveðskap og lausavísum, sem hann safnaði og skráði. Síðustu árin birti hann slíkt efni gjarnan á netinu.
Sem ungur maður var Sigurdór vinsæll söngvari, meðal annars með Hljómsveit Svavars Gests. Árið 1960 söng hann inn á hljómplötu Þórsmerkurljóð við texta Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings. Lagið náði miklum vinsældum sem varað hafa til þessa dags. Á sumrin frá 1976 til 1988 var Sigurdór fararstjóri Íslendinga á Spáni á vegum Úrvals.
Eftirlifandi eiginkona Sigurdórs er Sigrún Gissurardóttir, en þau gengu í hjónaband árið 1961. Þau eignuðust tvær dætur.