Sigmar Vilhjálmsson, einn eigandi veitingastaðarins Barion Bryggjunanar, greindi frá því á Instagram síðu sinni að brotist var inn á staðinn í nótt. Þjófarnir náðu þó ekki að hafa mikil verðmæti með sér.
„Dagurinn í dag byrjaði í nótt. Securitas og lögreglan höfðu samband og hér var innbrot í nótt. Hér var farið í sjóðsvélarnar hjá okkur og skiptimyntin tekin. Það var fátt annað gert því að menn höfðu ekki mikinn tíma útaf öryggiskerfinu og annað. En það er ljóst að þegar rignir þá hellirignir eins og maðurinn sagði. En það er líka ljóst að það gerir enginn svona nema í einhverskonar neyð og ég vona bara að viðkomandi geti nýtt sér þetta klink sem fékkst hér. Enda er ekkert sérstaklega gáfulegt að vera að ræna veitingastað í Covid,“ segir Sigmar á Instagram.
Staðurinn hefur verið lokaður síðan fyrir jól vegna fjölda starfsmanna í sóttkví. Sigmar segir stefnuna vera að opna staðinn aftur þann 2. janúar næstkomandi og verði tíminn notaður í að taka staðinn í gegn.