Enn einu sinni greindist metfjöldi Kórónusmita á Íslandi í gær. Hvorki meira né minna en 1.557 manns greindust með veiruna innanlands og 44 á landamærunum.
Er þetta langmesti fjöldi smita sem greinst hefur frá því að faraldurinn hóf gandreið sína yfir mannkynið. Rúv sagði frá metinu í morgun. Til samanburðar greindust samanlagt 1.800 manns í fyrstu bylgju faraldursins.
Um helmingur þeirra er greindust í gær voru í sóttkví og í dag eru rúmlega 7.500 í einangrun og 6.424 í sóttkví. Fram kemur á Rúv að um bráðabirgðatölur sé um að ræða en opinbera síðan, covid.is verður uppfærð í byrjun næstu viku. Eins og er liggja 20 inni á Landspítalanum, sex eru á gjörgæslu og þar af fimm í öndunarvél. Fimm þeirra eru óbólusettir.