- Auglýsing -
Nóttin var sú brjáluð ein, og um landið ljósið skein.
Eða þannig.
Eins og við mátti búast var nóttin nýliðna mörgum erfið; fólki og dýrum.
Þeir sem sinntu útköllum ýmiskonar þurftu að hafa verulega fyrir hlutunum – meira en venjulega og var ekki á bætandi; vont veður, sprengingar og mikill gleðskapur gerði það að verkum að gríðarlegur fjöldi útkalla var til dæmis hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.
Og ekki bætti úr skák að stór sinubruni kviknaði í Úlfarsárdal sem sást víða að.
Einnig þurftu slökkvilið á Akranesi og Selfossi að berjast við sinuelda, en mjög þurrt hefur verið á suðvesturhorni landsins; bað slökkvilið fólk að fara varlega við að skjóta upp flugeldum.
Varðstjóri á vakt hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu sagði nóttina bókstaflega hafa verið brjálaða að öllu leyti, þá verstu sem hann hafði upplifað á 30 árum sínum í starfin.
Árið 2022 kvaddi með látum, líkt og búast mátti við, og tekur því á móti Íslendingum með meiri látum; stormi og engu ferðaveðri, bara alls engu.
Gular og/eða appelsínugular viðvaranir gilda á öllu landinu á í dag og hvetur Vegagerðin alla til að fresta ferðalögum fram yfir hádegi á morgun.