Nú hillir undir stórkostlega andlitsbreytingu Akureyrar. Það er að segja ef „kerfið“ samþykkir yfirvofandi skipulagsbreytingu við Tónatröð og Spítalaveg, en þaðan er mikið víðsýni yfir bæinn. Gert er ráð fyrir fimm fjölbýlishúsum sem byggja skal í þrepum upp í brekkuna í átt að sjúkrahúsinu fyrir ofan og í kringum sjötíu íbúðum.
Ef þessi skipulagshugmynd gengur eftir verður að fjarlæga tvö hús af svæðinu, bæði gömul, svokallaðan Litla-Klepp (Tónatröð 6) og Sóttvarnarhúsið (Tónatröð 8).
Ekki er sátt meðal bæjarbúa um þessar hugmyndir né heldur aðdragandann að hinu nýja skipulagi. Eitt byggingafyrirtæki, SS Byggir, er látið sitja að lóðunum en þær ekki auglýstar. Ennfremur var SS Byggi falið ákveðið frumkvæði um skipulag lóðanna en „í samráði við skipulagssvið og skipulagsráð“ eins og það er orðað í fundargerð bæjarstjórnar Akureyrar frá 4. maí 2021.
Nú tekur senn við kynningarferli en að venju verður öllum gefinn kostur á að gera athugasemdir við hina fyrirhuguðu skipulagsbreytingu sem sumir bæjarbúar kalla andlitslitslyftingu en aðrir nota óvandaðri orð yfir.