Völvublað Mannlífs er komið út. Til þess að lesa spá völvunnar um komandi ár í heild sinni er hægt að nálgast blaðið hér.
Stjórnarandstaða
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mun þurfa að huga vel að heilsunni á komandi ári. Hann þarf að gefa andlegu hliðinni gaum og átta sig á því hvað það er sem lætur honum líða vel og hvað sýgur úr honum orkuna og veldur tjóni. Hann er í eðli sínu viðkvæmur á sálinni en hefur alltaf skammast sín fyrir það og reynt að fela það. Hann þarf að skilja að það er ekki veikleiki – heldur hefur það sínar björtu hliðar, gerir hann næman og ljúfan.
Sigmundur verður að fara betur með sig og læra að þykja vænt um sjálfan sig. Stjórnmálin fara í rauninni alls ekki vel í hann og hann er farinn að finna það. Á komandi ári fer hann að velta því fyrir sér hvort hann þurfi að hugsa hlutina upp á nýtt – hvort hann sé á réttum stað. Þessu getur enginn svarað nema hann sjálfur, en ég ráðlegg honum að þiggja ráð frá því fólki sem hefur reynst honum best og hann treystir. Þetta geta verið nánir vinir eða fjölskyldumeðlimir – fólk sem hefur hingað til veitt honum skilyrðislausa ást og skilning.
Inga Sæland er að sigla inn í þýðingarmikið ár. Það er eitthvað mikið umbreytingarafl í kringum hana sem mun bylta sjálfsmynd hennar og tilfinningalífi. Hún verður á nýjum slóðum – öðrum en við höfum áður séð hana á – og hún mun koma á óvart. Það er innri bylting að fara af stað hjá henni sem mun verða til þess að hún mun hafa miklu minni þolinmæði fyrir öllu sem er á gráa svæðinu. Inga mun öðlast mun meiri innri kraft og afl. Hún mun hugsa hlutina meira í svörtu og hvítu. Hún mun í kjölfarið lyfta grettistaki og koma af stað málum sem eru nærri hjarta hennar. Hún verður mikil réttlætisbaráttukona á þessum sviðum.
Fólk hefur oft ekki tekið Ingu Sæland nægilega alvarlega og nú mun koma í ljós að það voru sannarlega mistök. Innan þingheims mun fólk byrja að líta á hana sem verðugan andstæðing og hún mun vinna sér inn sinn sess. Þessi orka sem mun umlykja hana er nauðsynleg til þess að knýja mál áfram.
Andrés Ingi Jónsson er rísandi stjarna innan raða Pírata. Hann mun gera góða hluti á þinginu á árinu og vera áberandi. Hann mun upplifa sig á réttum stað í flokknum og verður vinsæll. Andrés Ingi mun láta til sín taka í réttlætismálum – enda mjög samfélagslega þenkjandi.
Kristrún Frostadóttir verður ótrúlega beitt á þinginu og mun leiða mjög öfluga stjórnarandstöðu. Hún mun ögra þeim sem hafa haft tögl og hagldir í fjármálaumræðum á þinginu og gefa lýðnum ferska sýn á stöðu mála. Hart verður vegið að hennar persónu á komandi þingári, enda virðist mörgum ógnað af risi hennar og veru í þinginu.
Skandall
Í sumar verður einhvers konar kynlífsskandall hjá æðstu embættismönnum þjóðarinnar. Þetta verður orðrómur á sveimi sem verður æ háværari. Að lokum er orðrómurinn staðfestur – hugsanlega er einhver sem lekur upplýsingum, einhver sem var á staðnum. Við fáum nýja sýn á þetta fólk og sjáum að það er margt sem gerist bak við luktar dyr. Þetta er ein hliðin á frjálsræði og tryllingi komandi sumars.