Í fyrsta þætti Guðna Ágústssonar ársins 2022 fékk hann til sín hinn þjóðþekkta skemmtikraft Jóhannes Kristjánsson frá Brekku á Ingjaldssandi. Jóhannes hefur meðal annars brugðið sér í líki Guðna sjálfs við fjölmörg tækifæri og gert honum manna best skil.
Inntur eftir því hver hann væri sagði Jóhannes “Ég er svo margur maður ef ég vil. En ég heiti Jóhannes Kristjánsson frá Ingjaldssandi, fæddur þar og uppalinn, síðasti maðurinn sem fæddist þar í dalnum. Það fæddust reyndar nokkrir á eftir mér á sjúkrahúsum og svona en mönnum þótti það enginn skaði þó ég færi.”
Jóhannes er eitt tólf barna bændanna Kristjáns Guðmundssonar og Árelíu Jóhannesdóttur sem þótti ekki mikið í sveitinni.
Jóhannes segir það um sveitalífið þar sem það gat gjarnan gerst að fólk varð veðurteppt í sveitum ,,að sá sem ekki hefur orðið veðurtepptur getur ekki náð fullum þroska. Maður verður bara að sætta sig við náttúruna eins og hún er – eins og pastina núna! Maður verður að bíða bara rólegur, ekki fara á taugum og æða til sálfræðings og svona heldur bara bíða og halda sjó! Maður býr svo lengi að þessu.”
Jóhannes hóf að skemmta ein áramótin eftir að hann slasaði sig á fæti á öskuhaugunum sem leiddi það af sér að hann festist á Þingeyri fram yfir páska “Þetta var náttúrulega stærra en París! Þarna var það þannig að ég fór með systur hennar mömmu inn í beitingaskúra og þar stóðu karlar, ég veit ekki hvað margir, og þá fór ég að segja þeim sögur, tómar lygasögur, eins og að pabbi ætti hrút sem gat staðið upp á afturlappirnar og heilsað. Svo fór ég að herma eftir körlunum í sveitinni sem ég mundi eftir og svo þeim sjálfum þannig og þegar ég kom inn veifuðu þeir fimmkalli eða tíkalli þannig að ég var forríkur á þessum tíma. Svo fór ég einnig niður á bryggju og þá kölluðu karlarnir á mig að koma í mat til sín. Þetta voru dagróðrakarlar þannig að ég valdi að fara í mat til þeirra sem áttu rauðsprettu og laug þá svo fulla. Þeir trúðu mér ekkert en þeir höfðu gaman að þessu. Og líka þegar ég var að herma eftir fólki í kring. Ég áttaði mig ekki á öðru en að þetta væri bara eðilegt.” Þegar hann flutti svo suður til Reykjavíkur og var í öðrum bekk menntaskóla fór hann að stunda það að fara á svalir Alþingis til að fylgjast með mönnum til að fá þá á tilfinninguna til að geta hermt eftir þeim en þeir vissu ekki gjörla í hvaða erindagjörðum hann var.
Jóhannes hefur hermt eftir fjölmörgum stjórnmálamönnum öðrum en Guðna í sinni tíð eins og Steingrími Hermannssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni en þó er það haft eftir honum að Davíð Oddson hefði ekkert skemmtanagildi “en sjáðu, bara ekki hjá sumum í Sjálfstæðisflokknum. Á þessum tíma var annar hver maður sjálfstæðismaður, þeir litu hver á annan en þeir máttu ekkert hlæja. En Davíð var ekki þannig. Þetta var nú bara sagt til að segja eitthvað.”
Jóhannes fékk heiftarlegt hjataáfall aðeins 43 ára að aldri og bjargaðist fyrir tilviljun því allt í senn var konan hans heima sem og dóttir auk þess sem að lögreglumennirnir sem komu á vettvang höfðu verið að hraðamæla í næstu götu og annar þeirra val sérmenntaður í hjartahnoði. Það tók svo sjúkraflutningamenn um fimmtán mínútur að koma hjartanu af stað með hjartastuðtæki. Við tóku svo níu ár af veikindum sem endaði með því að hann fór til Svíðþjóðar hvar hann fékk nýtt hjarta.
Hann sér þó ekki eftir veikindunum og hafi ekkert nema þakklæti að bera í garð íslensku læknanna og starfsfólksins sem annaðist hann. Hann öðlaðist nýja sýn á lífið og öðlaðist einkunnarorðin “hugsun ræður líðan”.
Jóhannes er enn að skemmta og ekki sér fyrir endan á því þrátt fyrir covid-19 “Ég byrjaði aldrei að skemmta þannig að ég get ekki hætt – ég ætla bara að vera”.