Sigmar Vilhjálmsson eða Simmi Vill eins og hann er oftast kallaður á 45 ára afmæli í dag. Simmi, sem er eigandi Barion og Minigarðsins er bæði vinsæll og umdeildur enda ófeiminn við að tjá sig um flest milli himins og jarðar.
Ferill Simma er ansi skrautlegur en fyrst steig hann fram á sjónarsviðið á íþróttavellinum en hann þótti efnilegur spjótkastari enda ekki langt að sækja íþróttahæfileika sína en faðir hans, Vilhjálmur Einarsson hlaut silfurverðlaun í þríþraut á Ólympíuleikunum í Melbourne árið 1956. Þá var bróðir Simma, Einar, afar farsæll spjótkastari.
Það var svo nokkrum árum fyrir aldarmótin að Simma bauðst að vera með innslög í barnaþáttum á Rás 1, ásamt vini sínum, Þorbirni Björnssyni, Tobba þegar þeir voru enn í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Kölluðu þeir sig Kúmenbræður og voru til að byrja með, með fimm mínútur í þættinum þar sem þeir grínuðust en vegna vinsælda þeirra var þeirra innslög lengd upp í 15 mínútur.
Svo kom símtalið að sunnan. Simma og Tobba bauðst að vera með þátt á nýtti útvarpsstöð, Mónó. Simmi sló til en Tobbi ákvað að halda frekar áfram í óperunámi sínu en hann býr nú í Berlín og vinnur sem sviðslistamaður. Simmi hitti fyrir Jóhannes Ásbjörnsson sem oftast er kallaður Jói. Þeir byrjuðu með þáttinn Sjötíu sem var frá 7-10 á morgnanna. Árið 2000 lagði stöðin upp lauparnar en þá færðu þeir sig yfir á Pop TV sjónvarpsstöðina þar sem þeir stjórnuðu þættinum Sjötíu mínútur. Árið 2001 bættust þeir Sveppi og síðan Auðunn Blöndal í þáttinn. Árið 2003 hættu þeir Simmi og Jói í þættinum og byrjuðu sem kynnar fyrir Idol stjörnuleit. Það var svo árið 2009 að þeir byrjuðu með þáttinn Simmi og Jói á Bylgjunni sem þeir stjórnuðu til ársins 2013 við miklar vinsældir.
Eftir að útvarpsferlinum lauk hófu þeir félagar að herja á veitingabransann, voru með Hamborgarafabrikkuna og fleira en svo skyldu leiðir og Simmi byggði minigolfvöll og Barion veitingastaðinn en hann á einnig Keiluhöllina. Simmi er þó ekki alveg hættur í fíflaganginum en hann er afar vinsæll á Instagram þar sem hann er reglulega með beinar útsendingar þar sem hann prófar andlitsmaska og opnar pakka frá aðdáendum sínum á meðan hann sötrar á víni.
Simmi á þrjá drengi með fyrrverandi eiginkonu sinni, Bryndísi Björgu Einarsdóttur en þau skyldu fyrir nokkrum árum. Í viðtali við Vísi árið 2000 tjáði Simmi sig um skilnaðinn.
„Eins og það var yndislegt að búa hjá vini mínum og ekki ætla ég að gera lítið úr því, en þetta var tímabil þar sem maður kemur heim úr vinnu og kemur ekki inn á heimilið sitt og öll rútína sem maður er vanur er bara farin. Það voru oft erfið kvöld að takast á við og ég fann það, og ég held að margir finni það sem fara í gegnum skilnað að tilfinningin að fara í einhverjar áttir sem eru ekki hollar er sterk. Maður varð svolítið að berjast við það og halda fókus. Skilnaður yfirhöfuð er sorgarferli, þetta er alveg tveggja ára sorgarferli þó að ákvörðunin sé rétt.“
Mannlíf óskar Simma Vill innilega til hamingju með afmælið!