Föstudagur 27. desember, 2024
4 C
Reykjavik

Sylvía Briem: „Það er ekki jafn gaman nema það sé áfengi – það er mýta“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sylvía Briem er tveggja barna móðir í Kópavogi. Hún starfar sem þjálfari hjá Dale Carnegie og einnig markþjálfi fyrir stjórnendur, fullorðna og ungt fólk.

Hún rekur tvö fyrirtæki sem er ansi skemmtilegt, að hennar sögn, en samhliða því er hún einn af þáttastjórnendum hlaðvarpsins Normið.

Mannlíf ræddi við Sylvíu um heilsuna, lífið og lífsstílinn.

Áfengislaus lífsstíll

„Ég var að klára grunnnám í sálfræði sem er yndisleg tilfinning. Ég er svo mikið að þjálfa og sjá um alls konar hluti sem tengjast daglegum rekstri á fyrirtæki.“

Sylvía hefur talað fyrir áfengislausum lífsstíl og fengum við hana til að útskýra fyrir okkur betur hennar leið að þeim lífsstíl og hvað það var sem heillaði hana.

- Auglýsing -

„Ég hef alltaf drukkið lítið og hefur fundist það vera ansi mikill heilsu- og tímaþjófur. Ég hef samt stundum fengið mér eitt og eitt rauðvínsglas eða bjór. Ég fékk mér seinast rauðvínsglas 27. desember í hitteðfyrra og því komið rúmlega ár síðan. Ég í rauninni er ekki búin að drekka í ár, óvart, ég var alltaf að bíða eftir að mér þætti það þess virði að missa tíma úr sólarhringnum í þreytu og almennt slen, sem áfengi getur haft í för með sér og ég er bara enn að bíða.

Eins og kannski sést þá er ég með marga bolta á lofti. Ég sinni heimili og á bara ekki tíma að missa fyrir áfengi. Ég sá það líka í taugasálfræðiáföngunum hvernig áfengi hefur áhrif á taugakerfið. Samkvæmt því, myndast meira streituhormón í líkamanum. Mér finnst nógu mikil streita í íslensku samfélagi og því þá að bæta ofan á það með drykkju?

Mér finnst yndislegt að vakna fersk alla daga, hreyfa mig reglulega og finna orkuna vera almennt meiri. Mér finnst ég afreka töluvert meira þegar ég er með ferskt toppstykki.“

- Auglýsing -

Langar að slaka betur á og afreka meira

Sylvía segir okkur að hún hafi óvart farið þessa leið:

„Ég er ekkert að segja að ég sé alveg hætt að drekka. Ég bara er að bíða eftir því að finnast það þess virði. Mér finnst heilbrigð og góð umræða að skoða áfengisneyslu sína og virkilega pæla í því hvernig hún hefur áhrif á mann. Við erum stundum svo samdauna streitunni sem íslenskt samfélag býður upp á. Mér finnst að fólk ætti að meta þetta fyrir sig og jafnvel minnka drykkjuna almennt, ef því langar að slaka betur á og afreka meira.

Það þarf bara hver og einn að meta fyrir sig hvernig á að hátta þessu. Það koma yfirleitt staðhæfingar um að þeim finnist ekki jafn gaman nema það sé áfengi. Það er mýta, þetta er eins og að venja sig á nýjan vana. Það getur stundum verið örlítið erfitt til að byrja með, en svo verður það yndislegt. Ég hef aldrei skemmt mér jafn vel í öllum gæsununum, brúðkaupunum, afmælunum, hittingunum og samkomunum og þegar ég er ekki að drekka. En til að byrja með þarf ég að venjast því og það er bara hið besta mál. Hugarfarið skiptir öllu.“

Gaman að sjá hvað fólk er opnara fyrir þessu

Sylvía flytur inn óáfengt, freyðandi hvítt te undir merkinu Töst.

„Þegar við komum með það í maí þá var markaðurinn frekar lítill. En nú eru allar verslanir að leggja áherslu á hillupláss fyrir óáfenga drykki. Mér finnst gaman að sjá hvað fólk er opnara fyrir þessu núna. Það er kannski vegna þess að drykkur eins og Töst gerir upplifunina eins og maður sé með!“

Hverjir eru helstu kostirnir við þennan lífsstíl?

„Þegar ég fæ þessa spurningu verður mér hugsað til þess þegar ég vaknaði á nýju ári, ég heyrði í vinkonu sem hafði fengið sér í glas og var smá ryðguð. Ég sat á náttfötunum með strákunum mínum, úthvíld, orkumikil og almennt með hreinan haus til að gera allt sem mig langaði. Mér finnst þetta tákn um lífsgæði, ég nýt andartakanna mikið betur. Ég nýt mín og afreka meira í vinnunni. Mér finnst ég fá betri hugmyndir í vinnunni og er með virkilegt þrek til að keyra þær af stað. Ég hreyfi mig reglulega og missi ekki úr út af sleni, ég á betri foreldramóment með börnunum mínum vegna minni þreytu.“

Flott úrval af óáfengum drykkjum í búðum

Hún segir okkur frá ferð sem hún fór með manni sínum út á land þar sem þau gistu á hóteli.

„Það var mikil drykkja hjá nokkrum hópum, margir borðuðu lítið sem ekkert af kvöldmatnum, sem var frábær. Ég vaknaði síðan til þess að fara í morgunmatinn. Þar sat ég og naut þess sem var á boðstólum og átti gott spjall við manninn minn. Við hliðina á mér var sami hópur og kvöldið áður. Enginn úr hópnum gat borðað og lágu allir frekar slenaðir fram á borðið. Ég hugsaði; ég nenni ekki að eyða tíma í þetta.

Mér fannst ég koma endurnærð heim til mín.“

Sylvía segist vera ánægð með þróunina og finnst vera „komin ansi stór og flott flóra í búðir af óáfengum drykkjum, bæði í formi freyðivíns og bjórs. Mér finnst líka gaman að geta tekið flotta flösku, eins og Töst er, og gert borðið aðeins hátíðlegra því það tekur gestrisnina í hærri hæðir.“

Sumar stórborgir hafa í auknum boðið upp á áfengislausa skemmtistaði og spurðum við Sylvíu hvað henni fyndist um þessa þróun.

„Já, ég held að það sé klárlega markaður fyrir áfengislausa staði hérna í bænum, ég hugsa að ég mæti bláedrú í Zúmba reglulega þrátt fyrir að vera með alltof stóra útlimi og frekar taktlaus. Ég hugsaði einmitt að mig langaði að opna stað sem maður færi á og fengi sér flottan kokteil og það væri jafnvel bara heilmikil dansstemning, allir að gera sig að fífli og hafa gaman. Þeir sem að eru lesa geta jafnvel bara stolið hugmyndinni, og ég mæti um leið og það verður opnað!“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -