„Ég hef verið betri,“ sagði Logi Bergmann í upphafi Síðdegisþáttarins á K100 nú rétt áðan.
Logi er sagður vera einn þeirra manna sem Vítalía Lazareva talar um í hlaðvarpsþættinum Eigin konur.
Vítalía lýsti því í þættinum að vinir fyrrum ástmanns hennar, Arnars Grant, hafi farið gróflega yfir mörk hennar. Logi er sagður einn þeirra manna.
Skjáskot birtust nýverið á samfélagsmiðlum af samskiptum Vítalíu og Loga. Þar útskýrir hún að atvikið hafi verið henni þungbært og að hún hafi ákveðið að leita réttar síns í málinu. Logi hváir og spyr um hvað hún sé að tala. Þegar Vítalía segist ekki þurfa að útskýra það nánar, en að haft verði samband við hann þegar þar að komi segir Logi einfaldlega „Æ hættu þessu rugli“. Hér fyrir neðan má sjá meira úr samskiptum þeirra.
Mannlíf náði í Loga Bergmann í fyrradag en hann vildi ekki tjá sig og sagðist ekki hafa tíma til að ræða málið við blaðamann. Síðan þá hefur hann hvorki svarað símtölum né skilaboðum.
Vítalía segir frá erfiðri reynslu þar sem fleiri vinir fyrrum ástmanns hennar hafi farið yfir mörk hennar. Tveir þeirra, Ari Edwald og Hreggviður Jónsson, hafa stigið til hliðar eða farið í leyfi frá störfum sínum í kjölfar frásagnar hennar. Hreggviður sendi frá sér yfirlýsingu nú síðdegis þar sem hann harmar atvikið og upplifun Vítalíu en segist ekki hafa brotið lög.