Tíu ár eru liðin frá því maður, sem gegndi yfirmannsstöðu hjá Isavia, misbauð kvenkyns undirmanni í sumarbústaðaferð á vegum vinnunnar. Það gerði hann bæði með því að fara nakinn í heita pottinn og reyna síðan að komast inn í svefnherbergi konunnar um nóttina, þrátt fyrir að hún hafi gagngert komið ferðatösku sinni fyrir hurðina til að varna manninum inngöngu.
Konan tilkynnti málið til Isavia eftir ferðina en þar á bæ var ekkert aðhaft í málinu. Hvorki var hreyft við yfirmanninum né honum veitt tiltal af nokkrum toga. Á endanum hrökklaðist konan úr starfi sínu hjá Isavia og leitaði á náðir réttarkerfisins. Þar var henni á endanum dæmdar bætur upp á 1.8 milljón króna vegna kynferðislegrar áreitni yfirmannsins.
Nú, tíu árum síðar, er komið upp annað nektarmál í heitum potti sem varla hefur farið framhjá nokkrum landsmanni, eftir að Mannlíf sagði fyrir frá því. Þeir Arnar Grant, Ari Edwald, Hreggviður Jónsson, Logi Bergmann Eiðsson og Þórður Már Jóhannesson eru þeir allir sakaðir um kynferðislegt áreiti í garð Vítalíu Lazareva.
Mál Vítalíu hefur vakið gríðarlega athygli eftir að Mannlíf birti frásagnir hennar af samfélagsmiðlun þar sem ofangreindir menn, ásamt líkamsræktarfrömuðnum Arnari Grant, voru sakaðir um kynferðislegt áreiti í hennar garð. Vítalía var í leynilegu ástarsambandi við Arnar sem að hennar sögn nánast falbauð hana vinum sínum. Hún lýsti ferð í sumarbústað þar sem hún og fjórir menn voru nakin í heitum potti og mörk hennar voru ekki virt.
Hreggviður tjáði sig um ásakanirnar í gær og staðfesti þá atburðarrás sem Vítalía hefur lýst. Um leið harmaði hann að hafa ekki stigið út úr þessum aðstæðum og tekur málið alvarlega um leið og hann ítrekar að hafa sjálfur ekki brotið nein lög.
Sjá einnig:
Þetta eru mennirnir sem Vítalía ásakar – Ari í leyfi vegna ásakana
Þá sagði Vítalía frá golfferð þar sem þekktur fjölmiðlamaður, Logi Bergmann, hafi fengið leyfi ástmannsins til að misbjóða henni. Hún birti sjálft nöfn allra meintra gerenda og samskipti við þá á samfélagsmiðlum. Vítalía kom síðan fram í hlaðvarpsviðtali hjá Eddu Falak þar sem hún sagði frá málum í smáatriðum. Meðal annars lýsti hún því þegar ástmaður hennar, harðgiftur, bauð vini sínum, sem hafði komið óvænt að þeim í ástarleik, á hóteli í Borgarfirði, aðgang að henni.
Logi Bergmann sendi einnig frá sér yfirlýsingu í gær, þar sem hann lýsti yfir sakleysir sínu gagnvart ásökunum Vítalíu en viðurkenndi að hafa gengið yfir mörk einkalífs hennar og Arnars með því að fara inn í herbergi þeirra. Líkt og Mannlíf greindi frá í gær hafa allir mennirnir stigið til hliðar úr ábyrgðarstöðum sínum vegna ásakananna.