Elín, sem alltaf var kölluð Ella, ólst upp í Reykjavík þar sem hún bjó meðal annars á Laufásvegi. Stærstan hluta vinnuferilsins vann hún að leikskólamálum hjá Reykjavíkurborg, þar á meðal við innritun á dagvistun barna. Hún tók einnig þátt í að stofna sælgætisverksmiðjuna Júmbó með systkinum sínum og föður.
Ella var mikil íþróttamanneskja og stundaði bæði handbolta og frjálsar, en spretthlaup var þar hennar sterkasta grein. Hún spilaði allan sinn handboltaferil með KR við góðan orðstír og náði því afreki að vera í fyrsta kvennalandsliði Íslands í handbolta. Eftir íþróttaferilinn vann hún svo ötullega að ýmsum málefnum innan KR en hún var meðal annars fyrst kvenna til að sitja þar í aðalstjórn auk þess sem hún tók þátt í stofnun KR-kvenna, Íþróttaskóla barnanna og skokkhóps KR. Hún var ötull talsmaður kvenna í íþróttum innan sem utan KR en hún sat um tíð í landsliðsnefnd kvenna. Ella studdi félagið sitt í leik og starfi til æviloka.