Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Hjúkrun í Covid: „Alltaf jafn hissa hve margir fara í trukkagír“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég er sérfræðingur í hjúkrun og vinn á smitsjúkdómadeild Landspítalans. Búin að vera þar sl. 20 ár og það er ástæða fyrir því. Deildin hefur verið ótrúlega fjölbreytt og skemmtilegt að vinna þar. Ungir sem aldnir leggjast inn og ástæður innlagna hafa verið alls konar sýkingar, smitsjúkdómar og sumir þurft einangrunar við. Helstu verkefni hjúkrunarfræðinga á deildinni eru t.d. sýklalyfjagjafir, sárameðferð og eftirlit með sýklasótt. Hjúkrunin snýst mjög mikið um að sinna einkennameðferð og stuðla að því að sjúklingar læknist af sínu meini og komist aftur út í samfélagið. Við höfum aldeilis þurft að sinna mörgum einstaklingum í einangrun, t.d. vegna ónæmra baktería (þvagfærasýkingar, niðurgangur, lungnabólga) og alveg upp í berkla en þetta hefur að jafnaði verið hámark ein einangrun á hvern hjúkrunarfræðing á vakt. Tímarnir í dag eru heldur betur öðruvísi. 

Smitsjúkdómadeildin er með fullbúnar einangrunarstofur og var að sjálfsögðu fyrsta deildin til að taka við Covid-sjúklingum. Í byrjun héldum við og vonuðum að þetta væri bara ein bylgja. Tíminn hefur leitt annað í ljós. Í gegnum allar bylgjurnar hefur deildin verið sú fyrsta til að taka við sjúklingum sem þurfa innlögn. Stundum hefur deildin ekki dugað til og yfirflæði Covid-sjúklinga farið á lungnadeildina. Þegar svo er þá þurfa þeir sjúklingar sem fyrir liggja á þessum deildum að fara annað, annaðhvort heim eða sett sem yfirlagnir á aðrar deildir þannig að starfsfólkið þar þarf líka að hlaupa hraðar. Þetta geta verið allt að 40 einstaklingar. 

Deildin í dag er full af Covid-sjúklingum. Hjúkrunin núna snýst um mikið og brátt eftirlit með lífsmörkum (hita, blóðþrýstingi, öndun, púlsi og meðvitund), meðferð við ógleði, hita, verkjum, mæði, niðurgangi o.þ.h. Við þurfum allt í einu að vera með sjúklinga í sírita (til að fylgjast með starfsemi hjartans) og stundum höfum við þurft að vera með fólk í ytri öndunarvél á deildinni sem við annars gerum lítið af. Tækniþekking þarf því að vera ansi mikil. Á stundum hefur bráðleikinn verið það mikill að sjúklingar flytjast liggur við á færibandi á gjörgæsluna. Þannig að já, fólkið er veikt sem leggst inn.

Innan um sjúklingana þurfum við að vera klædd frá toppi til táar eins og flestir þekkja og afleiðingar hlífðarbúnaðarins eru t.d. höfuðverkur, vöðvabólga, mikill sviti og hlífðargleraugun fyllast af raka þannig að maður sér stundum ekkert. Þá gengur illa að setja upp nálar. Einnig er maður þurr í nefi, munni og niður í lungun og næstum á hverjum degi með einkenni sem líkjast hálsbólgu og við erum alltaf að velta spurningunni fyrir okkur: Er ég núna komin með Covid? 

Til að hjálpa okkur að takast á við þetta verkefni hefur stuðningur frá samfélaginu, aðstandendum og yfirmönnum verið ómetanlegur. Mörg fyrirtæki hafa stutt okkur með ýmsum vörum, drykkjum og öðru. Stjórnendur hafa aldrei áður hlustað eins mikið á kvartanir starfsmanna sinna og allir tilbúnir að gera eins og þeir geta til að gera okkur lífið bærilegra. Allt innan marka fjárlaga. En fyrst og fremst er það starfsfólkið á deildinni, sem er önnur fjölskylda manns, sem með jákvæðni og samhug, samheldni og samvinnu hefur rekið þetta áfram. Án minna samstarfsmanna, sem eru jú ótrúlega góður og skemmtilegur hópur, hefði þetta ekki gengið. Ég er alltaf jafnhissa hve margir fara með hverri bylgjunni í einhvern trukkagír, en hugsuninni; hve lengi mun þessi trukkagír endast?, skýtur reglulega upp í kollinn á mér. 

 

- Auglýsing -

Höfundur:

Berglind Guðrún Chu. MS, CNS
Sérfræðingur í hjúkrun sjúklinga með smitsjúkdóma/húðsýkingar

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -