Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Skuldaslóð eftir brottrekinn forstjóra Alvotech – Rasmus á von á milljörðum vegna kauprétta

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rasmus Rojkjaer, fyrrverandi forstjóri Alvotech á óinnleysta kauprétti hjá fyrirtækinu fyrir milljarða króna samkvæmt heimildum Mannlífs. Hann er einn þeirra sex ónafngreindu lykilstjórnenda sem Viðskiptablaðið fjallaði um að ættu óinnleysta kauprétti hjá Alvotech. Bókfærðir kaupréttir fyrirtækisins voru um 13 milljarðar króna á síðasta ári og kemur þetta fram kynningum til fjárfesta hér á landi í aðdraganda hlutafjárútboðs. Þrír fyrrverandi forstjórar Alvotech eru meðal þeirra sem eiga kauprétti og gætu átt von á milljörðum króna þegar þeir selja hlutabréf sín í fyrirtækinu. Allir voru þeir reknir úr starfi hjá fyrirtækinu eins og Mannlíf hefur áður fjallað um og eru í hópi þeirra fimm forstjóra sem hafa stýrt uppbyggingu þess á undanförnum árum

Tilkynnt var um skyndilegan brottrekstur Rasmusar í mars 2019 en hann hafði þá sinnt starfinu í rúmlega eitt ár. Eftir brotthvarfið kom fljótlega í ljós að hann hafði skilið eftir sig tugmilljóna króna skuldaslóð hér á landi sem ekki hefur tekist að innheimta. Skuldirnar munu að mestu leiti vera við fyrirtæki sem Alvotech átti farsælt viðskiptasamband við og naut velvildar hjá. Má þar nefna PK Arkitekta, verslanir og minni verktaka sem aðstoðuðu forstjórann fyrrverandi við umfangsmiklar framkvæmdir á heimili hans í Mosfellsbæ. 

Tugmilljóna vanskil vegna glæsivillu

Stærstu vanskil Rasmusar munu vera við PK Arkitekta sem teiknuðu glæsivillu hans á Arnarnesi sem var þó aldrei byggð. Anton Þórarinsson athafnamaður festi kaup á lóðinni í Haukanesi fyrir um 120 milljónir króna líkt og Mannlíf hefur áður greint frá. Framkvæmdir standa nú yfir við glæsivillu Antons sem rís nú  við hliðina á nýbyggingu Björns Leifssonar eiganda World Class. 

 

Höfuðstöðvar Alvoech. Rasmus var ráðinn og rekinn.

Lánadrottnar réðust í ítrekaðar innheimtuaðgerðir þegar ljóst var að vanskilin voru víða og leitað var  aðstoðar Alvotech á árinu 2019 við að hafa upp á lyfjaforstjóranum fyrrverandi án árangurs. Fljótlega eftir starfslokin fengu lánadrottnar veður af því að hann hafi hreiðrað um sig í Kanada ásamt eiginkonu sinni. Á samfélagsmiðlum má sjá að þar rekur hann sitt eigið ráðgjafafyrirtæki. Svo virðist sem flótti Rasmusar undan skuldum sínum hér á landi hafi heppnast þar sem það þótti of kostnaðarsamt að ráðast í dýrar innheimtuaðgerðir í Kanada. Sérstaklega þótti það áhættusamt þar sem óljóst var um eignastöðu hans á þeim tíma og málaferli í Kanada væru kostnaðarsöm.  Samkvæmt heimildum Mannlífs er ekki vitað til þess að hann hafi greitt eitthvað inn á skuldir sínar hér á landi frá því innheimta hófst af alvöru við starfslokin.

Rasmus á von á milljörðum 

Lánadrottnar Rasmusar geta þó vonandi glaðst á næstunni ef hann getur innleyst milljarða króna kauprétti sína á Íslandi eða í Bandaríkjunum, samhliða skráningu Alvotech á hlutabréfamarkað. Fyrning viðskiptaskulda miðast yfirleitt við fjögur ár samkvæmt heimildum Mannlífs og alls er því óvíst hversu mikið ef eitthvað innheimtist af ofangreindum skuldum. Það veltur væntanlega á áhuga Rasmusar til að gera upp skuldir sínar og hvort Alvotech muni beita sér í málinu með einhverjum hætti.  

- Auglýsing -

Pálmar Kristinsson hjá PK arkitektum staðfesti að umrædd vanskil Rasmusar væru enn til staðar. Heimildir Mannlífs herma að skuldin við Pálmar nemi tugum milljóna króna, auk þess að fjöldi minni verktakar og aðila sitji enn sem komið er eftir með sárt ennið. 

Mannlíf sendi Elísabet Hjaltadóttur, upplýsingafulltrúa Alvotech, fyrirspurn um það hvort fyrirtækið myndi beita sér fyrir innheimtu skuldanna við nýtingu kauprétta. Hún neitaði að tjá sig um það mál. „Persónuleg fjármál fyrrverandi starfsmanna eru ekki eitthvað sem við höfum forræði yfir og tjáum okkur ekki um málið,“ svaraði hún í tölvupósti.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -