„Það er ekki þögn. Þegar við teljum að það sé nauðsynlegt að segja eitthvað um málið þá segjum við það náttúrulega í okkar eigin fjölmiðlum,“ sagði Magnús E. Kristjánsson útvarpsstjóri K100 þegar Mannlíf ræddi við hann í dag. Rétt er að geta þess að K100 heyrir undir Árvakur, líkt og Morgunblaðið.
Undanfarið hefur hver maðurinn á fætur öðrum ýmist farið í leyfi frá störfum sínum eða stigið til hliðar í fyrirtækjum, í kjölfar frásagnar Vítalíu Lazarevu um framkomu þeirra í hennar garð. Nú síðast var Ara Edwald, einum af umræddum mönnum, sagt upp störfum hjá Ísey útflutningi, vegna ásakananna.
Þá hefur framleiðsla á drykknum Teyg verið stöðvuð og sölu á honum hætt, en Arnar Grant er einn af þeim sem þróuðu vöruna.
Logi Bergmann, sem sömuleiðis hefur verið ásakaður um að hafa farið gróflega yfir mörk Vítalíu, fór í frí frá útvarpsstöðinni K100 fyrir helgi.
Aðspurður hvort Magnús telji það ekki rétt að tjá sig um málið þar sem Logi sé starfsmaður þeirra segir hann svo ekki vera.
„Nei, afhverju eigum við að gera það?“
Þá kvaðst hann ekkert vita um málið, Logi væri starfsmaður þeirra sem væri nú kominn í frí.