Hljómsveitin Hjaltalín hefur gefið út fimm breiðskífur og var Platan Terminal valin poppplata ársins 2009 á Íslensku tónlistarverðlaununum
Hjaltalín var stofnuð í MH haustið 2004 í tengslum við lagakeppni MH, Óðrík algaula. Tveimur árum síðar kom hljómsveitin fram í Kastljósi sem rokk-kvartett með fjórum klassískum hljóðfærum. Næsti stóri viðburður Hjaltalín var Iceland Airwaves 2006 og hafði þá Sigríður Thorlacius söngkona gengið til liðs við sveitina.
Hljómsveitin hefur gefið út fimm breiðskífur, túrað hér innanlands og erlendis. Platan Terminal var valin poppplata ársins 2009 á Íslensku tónlistarverðlaununum.
Meðlimir sveitarinnar eru:
- Axel Haraldsson trommuleikari
- Guðmundur Óskar Guðmundsson bassaleikari
- Hjörtur Ingvi Jóhannsson hljómborðsleikari
- Högni Egilsson söngvari og gítarleikari
- Sigríður Thorlacius söngkona
- Viktor Orri Árnasson fiðluleikari
Árið 2021 fengu svo hönnuðir nýjust plötu hljómsveitarinnar Hönnunarverðlaun Íslands. Verðlaunin voru afhent í áttunda sinn 29. október síðastliðinn við hátíðlega athöfn í Grósku. Á vef Hönnunarverðlaunanna er útskýrt að sjónum sé beint að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi.
Vægi hönnunar í samfélaginu alltaf að aukast
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar og arkitektúrs, enda er vægi hönnunar í menningu, samfélagi og viðskiptalífi alltaf að aukast.
Verðlaunin hafa tekið fram það besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning. Miðstöð hönnunar og arkitektúrs standa að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Landsvirkjun, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.
Í umsögn dómnefndar kom fram að:
Ferlið við tónsmíðar og plötuútgáfu er hugræn meðganga, hugarfóstur tónlistarfólks sem í ferlinu tekur á sig mynd, vex og dafnar. Útgáfa plötunnar er svo fæðingin, tímamót og afurðin endanleg. Óhagganleg og eilíf, meitluð í stein.
Í meðförum teymisins er hljóðheimur sköpunar hlutgerður sem úlfabarn, höggmynd úr basalti sem er jafnframt teiknuð og vistuð í þrívíðu stafrænu formi til þess að hámarka endingartíma og auðvelda birtingarmynd þess á ólíkum miðlum. Úlfabarninu er ætlaður endanlegur hvílustaður hjá Úlfarsfelli, sem þrívíður minnisvarði um tilvist útgáfunnar, sem nær langt umfram þá sem tíðkast hefur í plötuútgáfu til þessa.
Myndræn framsetning er óaðfinnanleg. Samspil ljóss og skugga skapar einstaka kyrrð og hlýju. Stund frosin í tíma. Leturval er vel við hæfi og táknróf plötunnar vísar smekklega í gyllta plötu Voyager geimfarsins sem er flöskuskeyti mannkyns út fyrir okkar sólkerfi.
Það er mat dómnefndar Hönnunarverðlauna Íslands árið 2021 að hönnun plötuumslags og heildarútfærsla „∞“ sé einstaklega sterkt heildrænt verk og metnaðarfullur minnisvarði um samspil tónlistar og hönnunar til framtíðar.“
Um hönnuðina:
Sigurður Oddsson er grafískur hönnuður sem eftir útskrift frá LHÍ 2008 hefur unnið náið með tónlistarfólki við gerð plötuumslaga og ásýnd þeirra. Samhliða því hefur hann unnið sem hönnuður og hönnunarstjóri og sérhæft sig í ímyndar- og ásýndarhönnun fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum. Í dag starfar hann bæði sjálfstætt og sem yfirhönnuður á hönnunarstofunni Hugo & Marie í New York.
Matthías Rúnar Sigurðsson er myndhöggvari og gerir höggmyndir sínar úr stein. Hann hjó fyrst í stein árið 2009 og síðan þá hefur hann gert fjölmargar höggmyndir og haldið sýningar m.a. í Safnasafninu og í Ásmundarsafni. Síðan árið 2018 hefur Matthías unnið að höggmyndum í garðinum fyrir utan Ásmundarsal.
Gabríel Bachmann er hreyfi- og þrívíddarhönnuður sem hefur unnið mikið við gerð tónlistarmyndbanda og hreyfihönnun fyrir tónleika. Hann hefur myndgert tónlist fyrir marga af vinsælustu tónlistarmönnum landsins. Hann stundar eins og er framhaldsnám við Truemax skólann í Kaupmannahöfn.
Í dómnefnd Hönnunarverðlaunanna skipuðu þau María Kristín Jónsdóttir/Sigríður Sigurjónsdóttir, formenn (Hönnunarsafn Íslands), Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt (LHÍ), Þorleifur Gíslason, grafískur hönnuður (MH&A), Margrét Kristín Sigurðardóttir (SI), Katarina Siltavuori, framkvæmdastjóri Archinfo í Finnlandi (MH&A) og Ragna Fróðadóttir, textíl- og fatahönnuður, og framkvæmdastjóri Edelkoort Inc (MH&A).