Aron Már Ólafsson leikari er 29 ára, einmitt í dag. Aron sem er betur þekktur sem Aron Mola hefur síðustu ár skotist upp á stjörnuhimininn. Hann byrjaði sem ein af fyrstu samfélagsmiðlastjörnunum á Íslandi en hefur nú leikið í nokkrum þáttum og þykir standa sig með prýði. Hefur hann leikið í þáttum á borð við Venjulegt fólk og Ófærð sem hafa slegið rækilega í gegn.
Í viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sagði hann frá jólaminningu frá 2014 en þá fór hann ásamt eiginkonu sinni, Hildi Skúladóttur og fjölskyldu hennar, til New York yfir hátíðarnar. Fjölskyldan hafði planað að fara saman á galakvöldverð eitt kvöldið en Aron hafði aðrar hugmyndir.
„Ég fæ þá rómantíska flugu í hausinn; að sleppa þessum kvöldverði, leigja okkur hjól og hjóla um Central Park og fá okkur bara eina pulsu í alvöru New York-pulsuvagni. Við gerðum það og hjóluðum um garðinn, fórum á skauta, horfðum á götulistamenn leika listir sínar og fengum okkur loks pulsu í jólamatinn.“
Þetta voru fyrstu jól parsins saman og var dagurinn mjög góður. Morgundagurinn var það hins vegar ekki eins góður. Pylsurnar gáfu parinu sem sagt matareitrun og voru þau rúmliggjandi inni á hótelherbergi næstu daga á eftir.
Mannlíf óskar Aroni Má innilega til hamingju með afmælið!