„Ég hef býsna oft stungið niður penna og hneykslast á misheppnuðu kísilveri í Helguvík, sem framan af var kennt við United Silicon. Sem betur fer var þessum mengandi óskapnaði lokað í september 2017 eftir að fjöldi íbúa í Reykjanesbæ hafði veikst af útblæstri verksmiðjunnar – sem allir eru sammála um að standi alltof nálægt íbúabyggð. En núverandi eigandi, Stakkaberg, sem er í eigu Arionbanka, gefst ekki upp við að reyna að opna verksmiðjuna að nýju,“ skrifar Tómas Guðbjartsson, hjartalæknir á Facebook-síðu sinni.
Mikil ólga hefur verið á meðal íbúa Reykjanesbæjar eftir hugmyndir bankans um enduropnun verksmiðjunnar sem stendur nærri íbúðabyggð í Keflavík og hefur valdið íbúum óþægindum og ama. Ástæðan fyrir aðgerðum bankans er að kísill hefur aldrei verið verðmætari en nú um stundir.
„Ætlar Arion banki virkilega að fara gegn íbúum og bæjaryfirvöldum eins stærsta byggðakjarna á Íslandi – eingöngu með gróða að leiðarljósi? Einnig má spyrja hvort opnun verksmiðjunnar samrýmist áformum bankans í baráttunni við loftslagsvandann. Hvar er samfélagslega ábyrgð bankans? Eða er bankinn úlfur i í sauðagæru sem á heimasíðu sinni auglýsir græn gildi og skartar bankastjóra sem nýlega var valinn Markaðsmaður ársins?“ skrifar Tómas. „Arion banki – úlfur í sauðagæru?“