Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur varað við síendurteknum örvunarbólusetningum og segja tíða örvunarskammta hugsanlega geta haft slæm áhrif á ónæmiskerfið.
Marco Cavaleri, yfirmaður bóluefnarannsókna hjá lyfjastofnuninni EMA, dregur þörfina fyrir annan örvunarskammt, eða fjórða heildarskammt af bóluefni, í efa og segir engar rannsóknir styðja þá þörf enn sem komið er. Hann segir enn ekki nóg af upplýsingum um Omíkron-afbrigðið fyrir hendi.
Cavaleri sagði á blaðamannafundi að síendurteknar bólusetningar með stuttu millibili væru ekki fýsilegar langtímalausnir. Hann sagði að örvunarskammtur sem hugsanlega væri gefinn á fjögurra mánaða fresti, gæti ofgert ónæmiskerfi fólks og valdið þreytu (e. fatique).
EMA hugnast ekki áætlanir um örvunarskammta með stuttu millibili, enn sem komið er. Cavaleri sagði að þörf væri á frekari rannsóknum til þess að skera úr um það hvort þróa þyrfti bóluefni sérstaklega fyrir Omíkron-afbrigði veirunnar.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) tekur í sama streng hvað varðar endurtekna örvunarskammta þegar ný afbrigði af veirunni eru enn að koma fram. Stofnunin spáir því að um helmingur íbúa Evrópu muni hafa smitast af Omíkron-afbrigðinu innan sex til átta vikna. Skilaboðin þaðan eru eftir sem áður þau að það sé vænlegra til árangurs að bólusetja alla heimsbyggðina, frekar en að ríkari þjóðir bæti sífellt við sig örvunarskömmtum.
Ekki komið til umræðu hér
Þessi umræða um síendurtekna örvunarskammta kemur í kjölfar þess að sumar þjóðir eru þegar farnar að skoða möguleikann á öðrum örvunarskammti. Í Ísrael eru bólusetningar með öðrum örvunarskammti meira að segja hafnar fyrir fólk yfir 60 ára.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir málið ekki hafa verið rætt hér á landi eins og sakir standa.
Nýjustu rannsóknir sýna að bólusetningar draga verulega úr líkum á alvarlegum veikindum vegna Omíkron-afbrigðisins. Líkurnar minnka enn frekar hjá þeim sem þegið hafa einn örvunarskammt. Marco Cavaleri lagði áherslu á þá góðu raun sem einn örvunarskammtur gæfi og hvatti fólk áfram til að þiggja hann.