Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ráðið Unni Brá Konráðsdóttur, lögfræðing og fv. forseta Alþingis og Steinar Inga Kolbeins, varaformann Sambands ungra Sjálfstæðismanna og fv. blaðamann á Morgunblaðinu, sem aðstoðarmenn sína.
Steinar Ingi hefur þegar hafið störf í ráðuneytinu og Unnur Brá hefur störf síðar í mánuðinum.
Unnur Brá lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2000. Hún sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn 2009-2018 og var forseti Alþingis árið 2017. Hún gegndi formennsku í allsherjar- og menntamálanefnd 2013-2016 og sat í fjölmörgum öðrum nefndum þingsins. Hún gegndi starfi aðstoðarmanns ríkisstjórnar 2018-2020 þar sem hún var sérstakur fulltrúi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, var verkefnisstjóri í vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar og sinnti ýmsum öðrum þverfaglegum verkefnum. Þá var hún skipuð formaður samninganefndar ríkisins vegna endurskoðunar búvörusamninga af Kristjáni Þór Júlíussyni, landbúnaðarráðherra. Frá því í september 2020 hefur Unnur Brá starfað sem formaður stýrihóps um framkvæmdir við Landspítala.
Unnur Brá starfaði áður sem sveitarstjóri Rangárþings eystra og hefur öðlast réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómstólum. Þá hefur hún lagt stund á mastersnám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.
Steinar Ingi er stúdent frá Menntaskólanum við Sund og stundar nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Samhliða námi hefur Steinar Ingi unnið sem blaðamaður á Morgunblaðinu og starfað í félags- og frístundamiðstöðvum í Gufunesbæ. Þá hefur Steinar Ingi gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en hann er 1. varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, hefur starfað við framkvæmd kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningum og setið í stjórn Heimdallar. Auk þess hefur Steinar setið í stjórn Vöku og Politicu, félagi stjórnmálafræðinema.
Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins.