Ragnar Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu um langt árabil, hefur lagt fótboltaskóna á hilluna, en Ragnar skýrði frá þessu í dag.
Ragnar er án efa einn allra besti varnarmaður sem Ísland hefur af sér alið.
Hann var í lykilhlutverki í íslenska fótboltalandsliðinu á árunum 2012 til 2020; lék nær alla mótsleiki þess, og var í byrjunarliði í öllum leikjum Íslands í lokakeppni EM 2016 og HM 2018.
Ragnar kveður sem fjórði til fimmti leikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi, en alls lék Ragnar 97 landsleiki; sá fyrsti var árið 2007 og sá síðasti árið 2020.