Dómurinn, sem var kveðinn upp í nóvember en birtur í gær, er nokkuð afdráttarlaus og fast kveðið að orði.
Stúlkan hafði sent vinkonu sinni einkaskilaboð gegnum samfélagsmiðilinn Snapchat, þar sem hún sakar piltinn um að hafa beitt sig og fleiri stúlkur kynferðisofbeldi.
„Það er nú ekkert langt síðan svona ummæli hefðu verið dæmd dauð og ómerk en dómstólar eru farnir að móta einhverjar hugmyndir um í hvaða tilvikum einstaklingar megi tjá sína upplifun, en það er ennþá dregin alveg skýr markalína milli þess að segja frá einhverju sem að viðkomandi telur sig hafa uppifað sjálfur, annars vegar, og svo hins vegar að segja frá einhverju atviki sem varðar einhverja aðra. Þá er gerð krafa um að viðkomandi færi sönnur á að það eigi við rök að styðjast.“
Dómurinn segir að ef fallist yrði á kröfu piltsins um að ummæli hennar yrðu dæmd dauð og ómerk og stúlkan dæmd til að greiða miskabætur fyrir að greina frá sinni upplifun, fæli það í sér að gerendum væri falið þöggunarvald yfir þolendum með hjálp dómstóla. Gunnar Ingi Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður, segir niðurstöðuna í samræmi við þá þróun sem hefur átt sér stað undanfarið.
Gunnar Ingi segir áhugavert að dómurinn tali um rétt þolenda til að segja sannleikann.
„Sú setning í dóminum vekur athygli en dómurinn segir á öðrum stað að dómurinn geti ekki skorið úr um hvor aðilinn í rauninni sé að segja sannleikann. Það sé ómögulegt. Og vegna þess þá getur hann heldur ekki dæmt ummælin dauð og ómerk, því að það felst náttúrulega ákveðin afstaða í þeirri niðurstöðu,“ segir Sigurður Ingi. „En lætur samt þennan rökstuðning fylgja með, að það sé ekki hægt að banna fólki að segja sannleikann.