Stefán Hannesson, fyrrverandi meðlimur Gagnamagnsins hefur nú stigið fram á Twitter og játað að hafa beitt tvær fyrrverandi kærustur sínar ofbeldi. Sagði hann af sér sem meðlimur bandsins þegar málið var gert opinbert.
Sjá einnig: Meðlimur Gagnamagnsins hættur vegna ásakana um ofbeldi
Það var fyrrverandi kærasta Stefáns sem gerði málið opinbert með færslum á Twitter þar sem hún meðal annars gagnrýndi Gagnamagnið fyrir að þegja um málið.
Stefán skrifaði færsluna í gær þar sem hann játar á sig ofbeldið og segist iðrast.
„Árið 2013 beitti ég þáverandi kærustu mína ofbeldi og hefur hún nú stigið fram og sagt frá. Því miður var þetta ekki í fyrsta skipti sem ég varð uppvís að slíku ofbeldi en það átti sér einnig stað í mínu fyrsta sambandi. Ég iðrast innilega fyrir það sem ég gerði, á hverjum degi og mun alltaf gera. Ég hef leitað mér hjálpar hjá sálfræðingi til að horfast í augu við þetta og vinna úr þessu. Varðandi Gagnamagnið, þá tilkynnti ég hópnum í fyrra að ég kæmi ekki fram með þeim ef við yrðum beðin um það í framtíðinni. Á þeim tíma hefði ég átt að tilkynna það opinberlega. Ábyrgðin er mín, skömmin er mín.“