„Í rauninni var hann alveg að fara að kveðja,“ segir Rúna Sif Rafnsdóttir sem í ágúst í fyrra gaf hálfs árs syni vinkonu sinnar, Eldi Elí Bjarkasyni, hluta af lifur sinni. Rúna var vegna þessa valin „Hetja ársins“ hjá Mannlífi og fór af því tilefni í viðtal hjá Reyni Traustasyni. Hér fyrir neðan er brot úr viðtalinu:
Hjónin ætluðu síðan að taka lest til Gautaborgar þar sem drengurinn lá á sjúkrahúsi en svo var pantað flugfar en vélinni seinkaði og þá fengu þau þær fréttir að drengurinn væri kominn í öndunarvél. „Það var örugglega erfiðasta augnablik lífs míns. Mér fannst eins og ég væri kannski að fara að geta bjargað honum en af hverju var ég föst þarna í sama landi? Þetta var rosalega erfitt.
Ég bara grét og maðurinn minn fór í svona „hvað getum við gert?“. Hann tók upp símann og athugað hvort hann þekkti einhvern sem gæti reddað þyrlu til að fljúga okkur yfir.
Svo náðum við að róa okkur niður.
Þetta var orðin spurning um líf og dauða. „Þess vegna held ég að þetta hafi verið svona dramatískt á vellinum – af því að við vorum komin af stað til þess að fara að bjarga honum – til þess að koma með þennan varahlut sem vantaði.“
Rúna segir að Eldur Elí hafi ekki verið í stakk búinn til þess að fara í aðgerð á þessum tímapunkti hvort sem var. „Hann var orðinn svo veikur að í rauninni var öndunarvélin að hjálpa honum að halda ballans og ná sér kannski á betra strik. Okkur var sagt að halda okkar plani og taka flugið þegar að því kæmi. Maður róaðist þarna og svo þegar við vorum komin í vélina fékk ég aftur á tilfinninguna að þetta færi vel þannig að vonin kom aftur. Það hjálpaði svo mikið að maður fann að það var þarna þessi von.“