Elma Stefanía Ágústsdóttir leikkona var í vönduðu viðtali á Morgunblaðinu um helgina. Þar talar hún um þá ákvörðun hennar og eiginmanns hennar, Mikael Torfasson, að flytja til Berlínar þar sem þau vinna við leikhús og kvikmyndagerð.
Þar segir hún einnig frá afar erfiðum tíma í lífi hennar er þáverandi kærasti hennar framdi sjálfsmorð eftir rifrildi við hana.
„Ég hef aldrei sagt neinum þetta; ég er ekki manneskja sem ber tilfinningar sínar á torg,“ segir Elma og heldur áfram, eftir að hafa dregið djúpt inn andann.
„Þegar ég var tvítug átti ég kærasta og hinn 19. ágúst árið 2006 fremur hann sjálfsvíg eftir rifrildi við mig. Öll fjölskyldan hans og vinir kenndu mér um og ég mátti ekki mæta í jarðarförina. Mér var sagt að ég ætti að fara í fangelsi fyrir manndráp af gáleysi. Ef ég hitti einhvern tengdan honum niðri í bæ var mér hótað; mér var gerð grein fyrir því að ég ætti ekki að láta sjá mig. Það væri hættulegt,“ segir Elma og tárin spretta fram, enda sárt að rifja upp verstu minningar lífsins, líkt og segir í viðtalinu í Morgunblaðinu.
Elma segir svo að nú sé kominn tími til að opna á þetta mál.
„Ég fór að hugsa um alla þá sem sitja eftir; um þá sem kennt er um svona,“ segir Elma og segist hafa óttast hefnd frá hans nánustu lengi á eftir.
Segir í viðtalinu að þessi hugsun hafi jafnvel leitað á huga Elmu mörgum árum eftir atvikið.
„Stundum áður en ég fór á svið í Þjóðleikhúsinu hugsaði ég: „Ætli einhver þeirra sé hérna, ætli einhver sé með byssu?“ En óttinn hvarf alltaf eins og dögg fyrir sólu þegar ég steig á svið,“ segir hún og segist líka hafa misst flesta vini sína á þessum tíma.
„Mér fannst að ég ætti að bera þennan kross, þó að ég kenndi mér ekki beint um. Ég var bara tvítug og þurfti að lifa með þessu.“
Aðspurð hvort fólk hafi að lokum séð að sér, segir Elma aðeins eina manneskju hafa haft samband við hana.
„Besti vinur hans tók líf sitt nokkrum árum síðar. Þá kom ein fyrrverandi vinkona mín til mín og baðst afsökunar og sagðist nú sjá að sjálfsmorðið hefði ekki haft neitt með mig að gera. En nei, fólk sá það ekki,“ segir Elma og bætti við að enginn hafi haft samband við sig enn.