Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Sakar lækna um hræðsluáróður til að fá meira fjármagn: „Þeir viti betur en sauðsvartur almúginn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður skrifaði pistil og birti bæði í Morgunblaðinu í dag og á heimasíðu sinni, undir heitinu Frelsi í stað valdbeitingar. Þar gagnrýnir hann sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda og sakar lækna um að tala fyrir hörðum að­gerðum til að fá meira fjár­magn til Land­spítalans.

Jón Steinar er partur af sístækkandi hópi fólks, oftar en ekki úr Sjálfstæðisflokknum, sem vill stytta eða afnema flest boð og bönn sem sett hafa verið á í baráttunni við heimsfaraldurinn. Fleiri úr þessum hópi eru til að mynda Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra sem öll hafa talað fyrir tilslökunum á sóttvarnarlögum.

Í byrjun pistilsins talar Jón Steinar um Omicron afbrigðið sem hann telur hættulítið fyrir 99% þeirra sem smitast.

„Nú hefur legið fyrir um hríð að smit af kórónuveirunni verða nær eingöngu af því afbrigði sem nefnt hefur verið Omicron. Þar með liggur fyrir að vel yfir 99% af þeim sem smitast verða lítt eða ekki veikir. Samt er haldið áfram að skerða frelsi manna í stórum stíl.“

Jón heldur áfram og talar um hræðsluáróður.

„Atvinnufyrirtækjum er lokað og einstaklingum er bannað að fara út úr húsi. Þetta er allt saman fullfrískt fólk sem stjórnvöld segjast beita þessu valdi til að forðast útbreiðslu smits. Beitt er hræðsluáróðri til að halda þessum stjórntökum uppi. Talað er um að „hópsmit“ sé yfirvofandi, án þess að gera grein fyrir hættunni sem af því á að stafa. Það er eins og sumir læknar telji sjálfsagt að beita menn þessu valdi. Þeir viti betur en sauðsvartur almúginn hvað honum er fyrir bestu. Samt eru það gömul og ný sannindi að bestu varðmenn hagsmuna einstaklinga eru þeir sjálfir.“

- Auglýsing -

Jón Steinar telur mögulega best ef sem allir smituðust til að ná hjarðónæminu.

„Eins og bent hefur verið á, er ekki nein þörf á að beita þessum brögðum til að hindra útbreiðslu smitsins. Einfaldlega vegna þess að lítil sem engin áhætta fylgir því að smitast. Kannski er bara best að sem flestir smitist af veirunni sem nú orðið má telja saklausa. Þannig hlýtur svonefnt hjarðónæmi að nást fyrr en ella.“

Í lokaorðum sínum skýtur Jón föstum skotum á lækna og veltir því fyrir sér hvort þeir séu að búa til stöðu til þess að þrýsta á hærri framlög úr ríkissjóði.

„Hér er alltof miklu fórnað fyrir lítið. Persónulegt frelsi með ábyrgð telst til þeirra lífshátta sem við viljum viðhafa. Látum ekki einsýna lækna villa okkur sýn. Kannski eru þeir bara að búa til stöðu sem þeir telja að þrýsti á um hærri framlög úr ríkissjóði (les: frá skattgreiðendum) til Landspítalans? Hlustum frekar á þá virðingarverðu starfsbræður þeirra sem vilja ekki taka þátt í þessu ofríki og mæla með afléttingu valdbeitingarinnar.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -