Mánudagur 25. nóvember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Halldóra vinnur með alzheimersjúkum: „Að vera öðruvísi er ekki slæmt, heldur gefur það lífinu lit“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Að glíma við fordóma, þeir eru alls staðar. Að vera öðruvísi er ekki slæmt, heldur gefur það lífinu lit. Við megum ekki vera öll eins. Það er engin ástæða til þess að finna fyrir minnimáttarkennd þótt þú fallir ekki fullkomlega inn í hópinn. Þetta lærði ég meðal annars þegar ég flutti til Spánar,“ segir Halldóra Arnardóttir listfræðingur í spjalli um lífið og listina.

Mannlíf hafði samband við Halldóru en hún hefur verið með mjög áhugaverð námskeið í Listaháskólanum og á fleiri stöðum sem heita Listir og menning sem meðferð. Henni hefur meðal annars verið boðið að kynna verkefni sín við söfn eins og MoMA og MET í New York. Allt frá árinu 2008 hefur hún aðallega unnið með taugasérfræðingi að kanna hvort listir og menning gætu haft góð áhrif á alzheimersjúklinga.

Hefur sínar eigin minningar, grafnar í steina og huldar gróðri

„Það er svo margt sem mótar mann á lífsleiðinni, jafnvel börnin manns,“ segir Halldóra. Halldóra er listfræðingur, fædd og uppalin á Akureyri, gekk þar í menntaskóla og stundaði fiðlunám í tónlistarskólanum. Hún er dóttir Arnar Inga myndlistarmanns og Dýrleifar Bjarnadóttur píanókennara. Menntuð í listfræði frá Bretlandi. Í háskólanum í Essex lærði hún listasögu og um leið bókmenntir og heimspeki. Ein bókanna sem hún þurfti að kaupa var Bíblían á ensku því listasagan er stútfull af tilvísunum í hana – það þurfti að fara rétt með á ensku. Í London lærði hún um sögu nútíma arkitektúrs og tók doktorspróf í University College London um ítalska hönnun og arkitektúr – grundarvallarspurningin var: Af hverju þekkjum við ítalska hönnun í verslunum áður en við lesum á vörumiðann?

Halldóra segir að ástæðan fyrir því að hún stýri nú verkefni sem heitir Listir og menning sem meðferð eigi sér uppruna í arkitektúr.

„Maðurinn minn, Javier Sánchez Merina arkitekt, fékk það verkefni að teikna rannsóknarsetur fyrir Alzheimerstofnunina í Murcia á Spáni. Lóðin var fyrir utan borgina í fjallshlíð á móts við ávaxta- og grænmetisekrur. Ég var í teyminu og tók þátt í að finna þræði í umhverfinu sem hægt væri að spinna úr og í bygginguna sjálfa sem yrði hluti af starfseminni í meðferð læknateymisins og rannsóknum tengdum alzheimer og heilabilun yfirleitt.

- Auglýsing -

Vegna þess hve landslagið hafði sterk séreinkenni þótti mikilvægt að fá tilfinningu fyrir fjallinu áður en hönnunarferlið hæfist. Farið var í langar gönguferðir um hlíðar fjallsins allt til þess að örva skynfærin: bera skynbragð á mismunandi ilmtegundir, horfa á liti, hlusta á hljóðin sem bárust með vindinum, greina áferðir, klífa hlíðar og þræða þrönga troðninga. Svo virtist sem staðurinn hefði sínar eigin minningar, grafnar í steina og huldar gróðri og í rjóðrum. Saman mynduðu sítrónu- og furutré, lavender, rósmarín og timjan opin og björt rými sem hleyptu dulúðugri grænleitri birtu í gegnum greinar sínar og lauf.“

Listir og menning sem meðferð

Halldóra segir að verkefnið Listir og menning sem meðferð hafi orðið til út frá þessari hönnunarvinnu. „Forstöðukona minnismóttökunnar, taugasérfræðingurinn Carmen Antúnez, var tilbúin til að prófa og athuga hvort listir og menning gætu haft þau áhrif á sjúklingana að lífsgæði þeirra bötnuðu; að brosið birtist oftar á andlitum þeirra, þeir yrðu fáanlegir til að klæða sig og borða sjálfir. Staðreyndin er sú að ef þér líður vel er allt einfaldara og auðveldara að takast á við lífið – hvort sem það á við um fólkið sem þjáist af alzheimer eða aðstandendur þess,“ segir Halldóra.

- Auglýsing -

Hún segir enn fremur að þó svo að alzheimersjúkdómurinn einkennist af minnisskerðingu, skertu skipulagi til athafna og máltruflun sé mikilvægt að koma fram af virðingu við þá sem eru haldnir honum. Alltof oft er litið á þá sem sjúklinga sem ófærir séu um að sýna getu sína eða taka þátt í samfélaginu. Því má ekki gleyma að þrátt fyrir minnistapið býr margt í mannssálinni sem enn er óskaddað og gerir fólk með alzheimer að verðugum þjóðfélagsþegnum.

Listir og menning sem meðferð fékk strax mikinn skilning hjá læknateyminu og ekki síður hjá listafólki. Listamenn búa margir yfir einstakri færni til að ná til tilfinningalífs fólks og fá hjá því viðbrögð. Eins og Carmen Antúnez skrifaði í bókina Listir og menning sem meðferð – íslensk söfn og Alzheimer (Háskólaútgáfan 2015), er heilinn alveg einstakur vöðvi og býr yfir hæfileikum til margvíslegrar listsköpunar. Listin er þáttur í lífi hvers manns. Bæði hæfileikinn til að búa hana til og tilfinningin fyrir henni. Hvernig hún örvar og tengist tilfinningasvæði heilans er veigamikið verkfæri til að tengjast tilfinningunum. Með öðrum orðum, til að tengjast tilfinningaminninu, sem er aflið sem gerir okkur kleift að læra.“

Nota nærumhverfið sem örvun

Aðspurð hvort að hún geti útskýrt námskeiðið betur, segir Halldóra að: „námskeiðin séu mismunandi, allt frá því að þjálfa verkefnastjóra í fræðslu í söfnum, listkennslunemendur í að nýta listform sín fyrir ólíka samfélagshópa til opinna námskeiða í Endurmenntun Háskóla Íslands. Öll beinast þau að því að nota nærumhverfið sem örvun, ná tengingu við tilfinningaminnið í gegnum hin ólíku listform og nálgast spurningar á fordómalausan hátt. Þá er ekki átt við að spyrja hvernig hluturinn sé á litinn eða í laginu, heldur miklu frekar leita eftir félagslegum tengingum. Hvernig fékkstu þetta málverk? Þekktirðu málarann? Hver gaf þér askinn sem er á hillunni – núna borðar enginn úr slíku íláti.

Þessar spurningar eru einfaldar í fljótu bragði, en þetta eru allt spurningar sem búa til tengingar. Það skiptir ekki máli hvort þær eru „réttar“ í minningunni eða ekki. Mestu máli skiptir að örva hugsunina.

Um þetta ræðum við á námskeiðunum – á mjög ólíkan hátt og allt eftir viðfangsefninu. Við vinnum út frá því jákvæða, styrkleikum manneskjunnar en ekki veikleikum. Það er mjög mikilvægt,“ segir Halldóra.

Ferðaðist um Ítalíu í heilt ár

Ásamt því að halda úti námskeiðum er Halldóra að skrifa bók um arkitektinn Skarphéðin Jóhannsson. Hann teiknaði meðal annars Menntaskólann við Hamrahlíð, Mjólkurbú Flóamanna á Selfossi og Hagaskóla. Áður skrifaði hún bók um konu hans, Kristínu Guðmundsdóttur, okkar fyrsta háskólamenntaða innanhússarkitekt. Halldóra segir að hún hafi verið svo lánsöm að hafa aðgang að einkaskjölum Skarphéðins, þar á meðal hundruðum einkabréfa og teikninga. Eftir nám hans í Kaupmannahöfn ferðaðist hann um Ítalíu í heilt ár til að afla sér þekkingar á byggingarlist þeirrar merku þjóðar, sögu og lífsháttum og skrifaði um það sem fyrir augu bar heim til fjölskyldu og vina.

„Þetta er stórmerkilegur lestur og gefur innsýn í hugarheim arkitektsins, reynslu sem var einstök á þessum tíma fyrir Íslending og sem hann vann úr þegar hann kom heim árið 1952 og stofnaði teiknistofu.“

Listir opna fyrir tilfinningaþroska

Halldóra telur listnám vera mikilvægt fyrir alla og þeir sem njóta þess búa að því allt sitt líf. Listir opna fyrir tilfinningaþroska. Þær örva leikni til að virða fyrir sér hlutina án fordóma og auka getu til að takast á við breytingar. Listræn tjáning og hugmyndaflug fær að þroskast ef menn fá frelsi til að hugsa. Það leiðir til framþróunar samfélagsins.

„Það er enginn að segja að allir ættu að vera listamenn. En það er ekki síður skemmtilegt að skoða mannkynssöguna í gegnum myndlist og arkitektúr heldur en í gegnum sögubækur. Það eru margar hliðar á hverju máli – allt eftir því hver segir frá og hvernig. Listir kenna okkur að hlusta á aðra og bregðast við af samkennd.“

Finnst þér að það mætti efla kennslu á sviði listar og menningar á Íslandi?

„Tvímælalaust! Og ég vil þakka þér fyrir spurninguna því við erum að opna nýja námslínu í Listkennsludeild Listaháskólans haustið 2022, að öllu óbreyttu. Námslínan Listsköpun og samvinna – Leiðir að virkni og velferð er afrakstur tveggja ára vinnu með fimm evrópskum háskólum frá Spáni, Portúgal, Finnlandi, Bretlandi og Þýskalandi á sviði arkitektúrs, myndlistar, samfélagslista og listmeðferðar. Námið er sniðið að listamönnum sem hafa áhuga á að styrkja félagslega þátttöku, virkni og vellíðan einstaklinga í sínum störfum. Markmiðið er að þróa nýjar leiðir í þverfaglegri samvinnu listamanna, heilbrigðis- og skólafólks í störfum þeirra við þær síbreytilegu aðstæður og fjölbreytta flóru einstaklinga sem það vinnur með. Í náminu verður unnið með möguleika ólíkra listgreina til að tengja saman einstaklinga, stuðla að virkni og vellíðan, og efla sjálfstraust þeirra sem eiga á hættu að verða jaðarsettir.

Þessi námslína verður enn fremur kynnt á fyrirhugaðri fundaröð Reykjavíkurakademíunnar, Öllum til heilla, frá febrúarmánuði og fram í júní. Reykjavíkurakademían vill með henni efla samtalið um samfélags- og þátttökulistir, hugmyndafræði þeirra og gildi fyrir samfélagið.

Það má alltaf efla meðvitund manna um vægi lista og menningar, ekki bara á einstaklinga heldur ekki síður stjórnvalda. Listir eru viss heimspeki, þær fjalla um það hvernig við lifum í samfélagi við aðra og umhverfið.“

Teikna upp minningar

Hverjir hafa verið þínir helstu sigrar?

„Að auðga mátt listar og menningar sem meðferðar fyrir hina ólíku samfélagshópa. Listir og menning sem meðferð hefur fengið til sín heimsfræga listamenn til að vinna með skjólstæðingunum, og má þar nefna bandaríska vídeó-listamanninn Bill Viola og spænska kökumeistarann Paco Torreblanca. Með þeirra þátttöku bjuggum við til myndbönd þar sem tilfinningar eru tjáðar án orða og nýja Murcia-tertu sem er verðug þess að vera á hverju veisluborði.

Á Íslandi vorum við svo lánsöm að vinna með Þórarni Eldjárn rithöfundi, Jóni Snædal, forstöðumanni minnismóttökunnar á Landakoti, og Alzheimersamtökunum. Þórarinn las upp smásöguna sína Hvaðefsaga og fengum við nemendur úr Myndlistarskólanum í Reykjavík til að teikna upp minningar skjólstæðinganna sem spruttu upp út frá því að hlusta á söguna. Uppskeruhátíð var haldin í Þjóðarbókhlöðunni þar sem sýndar voru teikningar þeirra og smásögur skjólstæðinganna við þær.

En það er ekki þar með öllu lokið – nú eru fimm söfn á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri sem bjóða upp á sérsniðnar dagskrár fyrir fólk sem þjáist af alzheimer, aðstandendur þeirra og dagþjálfanir. Þau eru Listasafn Íslands, Þjóðminjasafnið, Borgarsögusafn Reykjavíkur, Listasafn Reykjavíkur og Listasafnið á Akureyri. Áhuginn eykst og sífellt fleiri söfn og dagþjálfanir vilja taka þátt í netkerfinu!

Söfn eins og MoMA og MET í New York hafa boðið mér að koma til að kynna verkefnið á ráðstefnum og fyrir safnafólkinu, sem er sigur út af fyrir sig. Við vinnum öll saman – alzheimersjúkdómurinn er alls staðar í heiminum og við verðum að læra af hvort öðru til að auka lífsgæði þeirra sem af honum þjást.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -