Kynís var stofnað af fagfólki 9. desember árið 1985 og var tilgangurinn að skapa vettvang sem gæti eflt samstarf fagfólks á þessu sviði. Kynfræði (sexology) er fræðigreinin um kynverund mannsins (human sexuality).
Fræðimenn sem leggja stund á kynfræði vilja, líkt og aðrir fræðimenn, auka þekkingu og skilning á viðfangsefni fræðigreinarinnar með skipulögðum hætti.
Útgangspunktur kynfræði er að maðurinn sé kynvera.
Félagið sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar umræðu um fræðslu um svokallaðar kyrkingar í kynlífi, en Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kynjafræðikennari hefur á síðustu dögum gagnrýnt slíka fræðslu Sigríðar Daggar Arnardóttur kynfræðings harðlega og sagt að hún sé að „normalísera ofbeldishegðun.“
„Eftir greinaskrif og skoðanaskipti dagsins vill Kynís koma eftirfarandi skilaboðum áleiðis:
Fólk er alls konar og fílar alls konar af ólíkum ástæðum. Það eru ekki einungis strákar og stelpur sem stunda kynlíf saman, heldur er kynhegðun og kynvitund einstaklinga ólík.
Við verðum að gera ráð fyrir þessu í orðræðunni og skapa rými fyrir öll.
Það er ljóst að unglingar horfa á klám. Unglingar nota klám á fjölbreyttan hátt, og rannsóknir sýna að sumir unglingar nota klám til að fræðast um kynlíf.
Þess vegna er mikilvægt að spjalla um klám í kynfræðslu og kenna unglingum klámlæsi (e. porn literacy), sem meðal annars felst í því að eiga heiðarlegt samtal um að klám endurspegli ekki raunveruleikann.“
Kynís vill benda á að „unglingar hafa alls konar langanir sem spretta frá alls konar lífsreynslu. Kannski vaknar einhver forvitni við að horfa á klám og er því mikilvægt í kynfræðslu að búa ekki til skömm, heldur frekar fræða af virðingu og opnum hug.
Öll fræðsla miðar auðvitað að því að koma í veg fyrir slæmar afleiðingar og efla einstaklinginn í að eiga ánægjulega reynslu.
Góð kynfræðsla felur í sér að mæta unglingum þar sem þau eru og vera heiðarleg í samskiptum. Ef okkur sem kynfræðurum finnst óþægilegt að svara spurningum unglinga þá þurfum við fyrst og fremst að skoða okkar eigin fordóma og fyrirfram gefnu hugmyndir, en ekki koma skömminni á þau.“