Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.3 C
Reykjavik

Blaðamaður í Búdapest: Leitin að tannleikanum II

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

16.01.22

Krókur Satans

 

Ég er enn þá svolítið þreytt eftir ferðalagið þegar ég geng inn á tannlæknastofuna. Blessunarlega er hún í sama húsnæði og hótelið, svo það er ekki mikil fyrirhöfn, sem hentar mér vel.

Þessi fyrsta heimsókn er á sunnudegi. Aldrei hef ég farið til tannlæknis á sunnudegi. En ég hef heldur aldrei farið til tannlæknis í Búdapest.

Það var lítil umferð á flugvellinum þegar við lentum, rétt fyrir klukkan tvö eftir miðnætti að ungverskum tíma. Ég játa það hér og nú að ég hafði kviðið vefabréfa- og bólusetningareftirlitinu örlítið. Ekki af neinni sérstakri ástæðu – ég er með vottorð upp á mína bólusetningu og allt klappað og klárt. Ég hélt bara að það yrði eitthvert vesen. Ég bjóst alltaf við veseni á ferðalögum fyrir Covid og heimsfaraldur hefur lítið gert til að róa ofhugsandi heila minn.

Þetta var hins vegar enginn vandi. Pollslakir landamæraverðir sem glugguðu lauslega í vottorðið og þökkuðu mér svo fyrir.

Eftir að ég sótti töskuna skannaði ég salinn og fann fljótt strák með skilti sem á stóð stórum stöfum: Íslenska Klíníkin í Búdapest. Ég þangað. Hann lét mig fá umslag merkt mér og sagði mér af fyrsta tímanum mínum; tannhreinsun og röntgenmyndatöku daginn eftir. Þegar ég skimaði í kringum mig í komusalnum sá ég fleiri menn með skilti sem báru nöfn annarra tannlæknastofa. Ég geng svo langt að segja að flest skiltin hafi innihaldið nöfn tannlæknastofa í Búdapest. Það fór því hreint ekki á milli mála að hér eru túristatannlækningar mikið sóttar. Ég var sannarlega ekki á Íslandi lengur.

- Auglýsing -

Þegar út kom var lítil rúta sem beið mín og hinna gesta stofunnar. Eða kannski frekar langferðabíll. Gestum var boðin hressing í fljótandi formi. Ég er svoddan lúxusköttur inni við beinið og fannst því hreint ekki leiðinlegt að vera sótt með þessum hætti og skutlað beint upp á hótel – í stað þess að þurfa að eyða tíma og dýrmætri sálarró í að finna mér almenningssamgöngur á réttum stað.

Þegar ég kem í anddyri tannlæknastofunnar á sunnudeginum mætir mér brosmild stelpa sem býður mig velkomna og spjallar við mig eins og við séum gamlar vinkonur. Hún heitir Beatrix og ætlar að taka af mér röntgenmynd og hreinsa í mér tennurnar.

Beatrix er tannfræðingur. Hún segir mér frá afmæli sem hún var að skipuleggja, þar sem allt hafði gengið fullkomlega upp og hún var augljóslega ánægð með útkomuna. Hún segir að vinir láti hana alltaf skipuleggja öll afmæli. Aldrei myndu vinir mínir biðja mig um það – ég get ekki einu sinni skipulagt sokkaskúffuna mína.

- Auglýsing -
Beatrix tannfræðingur.

Ég spyr hana hvort hún vinni oft á sunnudögum. Hún játar því, segist kunna ágætlega við að geta dundað sér ein á sunnudögum við verkefni sín. Hún segir líka að það sé algengt að íslensku hóparnir komi á laugardagskvöldum með Wizz Air. Þá sé langbest að klára myndir og hreinsanir strax á sunnudeginum, svo hægt sé að byrja stærri meðferðir á mánudegi.

„Það er best fyrir tannlæknana að byrja með hreinan munn,“ segir hún.

Beatrix er með fallegar tennur og demant í einni tönninni. Hún er hlý og kát, og ég man hreint ekki eftir því að hafa skemmt mér svona vel í tannhreinsun áður. Hún segist hafa unnið á Íslensku Klíníkinni í tvö og hálft ár. „Það er mjög skemmtilegt. Ég elska vinnuna mína,“ segir hún. Ég efast ekki um þá fullyrðingu í eina sekúndu; Beatrix er nefnilega með ansi áhugavert húðflúr á handleggnum; litla, fallega teiknaða tönn.

Við hreinsunina notar hún svokallaða EMS-vél og duft sem hún nuddar á tennurnar svo hægt sé að sjá út frá litabreytingum hvar ástandið er verst og þörfin mest fyrir hreinsun. Fjólublár litur sýnir elsta tannsteininn og bleiki þann nýjasta – þar sem ég þyrfti ef til vill að vanda mig betur við tannburstunina eða með tannþráðinn. Ég nota alveg tannþráð samt. Þegar ég man eftir því. Hver notar tannþráð alltaf?? Eina manneskjan sem ég veit um er Sara, vinkona mín. Hún er líka með tennurnar sínar á heilanum.

Jæja, gott og vel. Ég lofa Beatrix að vera duglegri með tannþráðinn.

EMS-vélin er augljóslega frekar ný græja og mjög tæknileg. Ég man ekki eftir að hafa fengið tannhreinsun með svona tryllitæki áður. „Þetta er frábært tæki. Mér finnst þetta besta tækið í tannfræðibransanum,“ segir Beatrix. Hún segir að tækið fari mýkri höndum um tennurnar og tannholdið en gengur og gerist. Það fer eiginlega ekki á milli mála, því ég held að tannhreinsun hafi aldrei verið jafn þægileg og hún er í þetta skiptið.

Beatrix notar ekki einu sinni verkfærið sem ég kýs að kalla „krók Satans“. Þið vitið, þennan sem er notaður til að skrapa upp tannstein á milli tannanna. Ég er næstum ekkert að ýkja þegar ég segi að tannhreinsun hjá mér sé venjulega blóðbað. Í þetta sinn er hún ekki einu sinni bönnuð innan tólf ára. Samt eru tennurnar skínandi hreinar og allur tannsteinn á bak og burt.

Tannhreinsun í fullum gangi og ég svona líka sátt við krókleysið.

 

Föðurlandsvinur og handbolti

Nú er eins gott að ég ætla mér að flagga þessu brosi – á handboltaleik kvöldsins. Hvers konar Íslendingur væri ég annars ef ég nýtti ekki tækifærið til þess að fara á landsleik sem er einmitt í sömu borg, á sama tíma og ég er úti? Ég yrði seint kölluð íþróttakona, en það væru samt föðurlandssvik.

Ég skunda því á íþróttabarinn Champs niðri í miðbæ Búdapest til þess að sækja miðann minn. Var ég búin að nefna það að ég er ein? Ég er ein. Að fara á handboltalandsleik. Í Búdapest. Þið sjáið að mér er mikið í mun að vera ekki föðurlandssvikari.

Ég flassa mínu besta, hreina brosi á barnum og skima í kringum mig eftir Haraldi. Hann er með miðann minn, nefnilega. Gallinn er hins vegar að ég veit ekki hver hann er og þau sem vinna á barnum vita ekkert um málið. Í kringum mig eru eintómir hópar af Íslendingum í syngjandi stuði, klæddir í bláar treyjur, sumir með andlitsmálningu og horn á höfði skreytt fánalitunum. Ég er svartklædd frá toppi til táar. Eins og álfur út úr hól. Eða norn kannski frekar. Ég á næstum von á því að einhver pikki í mig og segi: „Þú átt ekki heima hér.“ Það gerir það samt enginn. Hvar er Haraldur? Hver er Haraldur?

Á endanum finn ég mér vinalega konu sem er að panta sér hvítvín. Hún er glaðbeitt og vandlega skreytt fánalitunum. Ég ákveð að leita á náðir hennar og spyr hvort hún geti hjálpað mér að finna Harald sem sé með miðann minn. Langsótt.

En viti menn, eftir smá umhugsun segist hún eflaust geta fundið út úr því – og hverfur svo inn í mannmergðina. Ég borga hvítvínið hennar og bíð með öndina í hálsinum. Ekki líður á löngu þar til hún birtist með hávaxinn mann í eftirdragi, sem hún kynnir sem Halla. Og það er sannarlega sá eini rétti. Hann lætur mig fá miðann og ég þakka bæði honum og fundvísu konunni kærlega fyrir. Hún fær hvítvínið sem þóknun. Ég vildi að ég hefði spurt hana að nafni. Þú veist hver þú ert, ef þú lest þetta; bjargvættur með hvítvín.

Stuttu síðar verð ég aftur ofurmeðvituð um að ég sé ein inni á stað sem er troðfullur af góðra vina hópum. Ég er alveg vinalaus hér með öllu. Nú kemur hún, félagsfælnin. Hvað er ég að gera? Ætla ég alein á leikinn líka og sitja ein að hvetja eins og einhver vinalaus rugludallur? Ég er ekki föðurlandssvikari! Er ég nokkuð að ofhugsa þetta?

Einhvern veginn tekst mér hálfpartinn að bakka í horn þar sem stelpa, klædd í landsliðstreyju og með andlitsmálningu á kinnunum, stendur með drykkinn sinn og horfir brosandi á fólkið í kringum sig. Ég spyr hana hvort sætið við hliðina á henni sé laust. Hún brosir breitt (mjög hreinar og góðar tennur) og játar því. Ég virði hana fyrir mér í sekúndubrot og spyr svo: „Ertu ein?“ Og viti menn, það er hún. Hún virðist alveg jafn fegin og kát og ég, þegar ég segist líka vera einnar konu föruneyti. Þar með er því reddað: bæði föðurlandsvinur og með félagsskap. Gæti ekki verið betra. Hún heitir Eva og er 21 árs. Hún býr í bæ sem er í nágrenni við Búdapest, um það bil klukkutíma í burtu. Þar starfar hún sem sjálfboðaliði í ungmennahúsi og segist kunna vel við sig.

Eva handboltavinkona.

Við Eva skundum á leikinn og fylgjumst með æsispennandi viðureign Íslands við Holland. Fyrst tekst mér samt að kaupa mér eitt stykki landsliðstreyju með aðstoð Halla bjargvættar. Ég bið um hana extra stóra svo ég geti notað hana til þess að sofa í síðar.

Ég hef aldrei áður horft á landsleik á stórmóti í öðru landi og það er alveg mögnuð upplifun. Tveimur sætaröðum fyrir framan okkur eru Þorgerður Katrín, alþingiskona og formaður Viðreisnar, og Kristján Arason, eiginmaður hennar. Sonur þeirra, Gísli Þorgeir, er í liðinu og þau fagna ákaft. Þorgerður er æstur stuðningsmaður, stekkur oft á fætur og skammast út í andstæðingana og dómgæsluna.

Hér er andrúmsloftið aðeins öðruvísi en heima, hvað Covid varðar. Fyrir það fyrsta megum við auðvitað öll vera í íþróttahöllinni, það er eitt. Annað er að fólk virðist bara yfir höfuð slakara hér. Kannski ráða spítalarnir betur við álagið, ég veit það ekki. Kannski er það vegna þess að þessi þjóð hefur tvisvar sinnum síðan heimsfaraldurinn hófst þurft að fara í strangt útgöngubann, „lock-down“ eins og það er kallað, mánuðum saman. Ég held að fólkinu hér finnist við ekki hafa það sérstaklega skítt heima. Það er eitthvað við þetta útgöngubann. Hafirðu ekki upplifað það, ertu ekki í klúbbnum.

 

Á morgun byrja ég að heimsækja tannlæknastofur víðs vegar um Búdapest. Þá fer ég að fá betri mynd á það sem Íslendingar eru að sækja hingað í stórum stíl – frekar en að fá þjónustuna heima fyrir. Verðið er augljós breyta, en ég er spennt að komast að því hvernig þetta umhverfi kemur mér fyrir sjónir.

 

 

 

 

Þessi ferð er farin í samstarfi við Íslensku Klíníkina í Búdapest.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -