Vandræðagangur er hjá þeim sjálfstæðismönnum í Reykjavík sem ekki vilja sjá Hildi Björnsdóttur borgarfulltrúa sem leiðtoga í skarði Eyþórs Arnalds. Það sem helst þvælist fyrir fólki með Hildi eru tengsl hennar við Jón Ásgeir Jóhannesson athafnamann og hugmyndafræðileg samleið með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. Sá armur flokksins sem fylgir Guðlaugi Þór Þórðarsyni hefur leitað logandi ljósi að kandídat en án uppskeru. Á meðal þeirra sem dregnir voru á flot í umræðunni er Páll Magnússon, fyrrverandi þingmaður. Páll er líka orðaður við formannsstólinn í Knattspyrnusambandi Íslands og grínast með að það sé offramboð af honum. En nýjasta útspilið er svo Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi sem segist hafa orðið vör við fjölda áskorana um að hún verði leiðtogi. Almennt er það metið sem svo að Hildur muni gjörsigra hana í prófkjöri og armur Guðlaugs sitja eftir með sárt ennið …