Haraldur Diego, flugmaðurinn sem er einn þeirra fjögurra sem leitað hefur verið í tæpan sólarhring, er reynslumikill og flýgur reglulega útsýnisflug. Hinir þrír eru erlendir ferðamenn.
Mörghundruð björgunarsveitarmenn leita enn flugvélararinnar sem ekkert hefur spurst til síðan um hádegisbil í gær. Sjónir beinast að sunnanverðu Þingvallavatni eftir að ný vísbending barst um staðsetningu vélarinnar.
Flugvélin er lítil, af gerðinni Cessna 172N með skráningarnúmerinu TF-ABB.
Haraldur Diego er tæplega fimmtugur og hefur um árabil starfað sem flugmaður og ljósmyndari. Hann rekur fyrirtækið Volcano Air Iceland og nýtur mikilla vinsælda sem útsýnisflugmaður yfir íslenska náttúru. Hann er sömuleiðis formaður AOPA, hagsmunafélags flugmanna og flugvélaeigenda á Íslandi. Hann er einnig ritstjóri Flugsins, tímarits um flugmál.
„Fjöldi flugmanna frá ýmsum félögum og vinir hans leita hans líka. Þetta sýnir ekki bara samheldni íslensku þjóðarinnar heldur líka hve elskaður Haraldur er,“ skrifar ljósmyndarinn Chris Burkard, sem einnig er góður vinur Haraldar.