- Auglýsing -
Fyrr í dag fannst olíubrák í sunnanverðu Þingvallavatni en á því svæði hefur mest verið leitað á síðan síðdegis í gær.
Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Um það bil tuttugu björgunarsveitamenn og starfsfmenn séraðgerðasveitar Gæslunnar eru við leit sunnan við Þingvallavatn en leitað er flugvélarinnar sem týndist í gær. Flugmaðurinn Haraldur Diego og þrír farþegar hans eru um borð í vélinni.
Búið er að taka sýni úr olíubrákinni og senda það í rannsókn. „Þetta er bara ein af fjölmörgum vísbendingum sem hafa borist. Meginþungi leitarinnar beinist enn að þessu svæði,“ sagði Ásgeir ennfremur í samtali við mbl.is