Dóra Ólafsdóttir, elst allra Íslendinga, lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli í gærmorgun 109 ára að aldri.
Morgunblaðið fjallaði um Dóru en sló hún Íslandsmet í langlífi þann 13.desember síðastliðinn og sagðist hún ánægð með áfangann. Þakkaði hún aldrinum heilbrigðu líferni en hafði hún aldrei drukkið áfengi né notað tóbak.
„Á meðan ég get lesið og gengið þarf ég ekki að kvarta,“sagði Dóra eitt sinn í viðtali við Morgunblaðið.
Dóra fæddist í Sigtúnum í Grýtubakkahreppi í Suður Þingeyjarsýslu þann 6.júlí 1912. Var hún næst elst átta systkina og bjó hún lengst af á Akureyri.
Eiginmaður Dóru var Þórir Áskelsson, sjómaður og seglasaumari en hann lést árið 2000. Dóra lætur eftir sig tvö börn, Áskel Þórisson og Ásu Drexler.
Hallfríður Nanna Franklínsdóttir á Siglufirði er nú elsti Íslendingurinn, en hún verður 106 ára í maí.