Enginn þeirra fjögurra sem var um borð í Cessna-flugvélinni sem brotlenti á Þingvallavatni er í flakinu. Fólkið hefur því náð að komast af sjálfsdáðum úr flakinu sem er um kílómetra þaðan sem styst er í land. Þetta kom í ljóst þegar kafbátur var sendur að flakinu í gær. Jafnframt liggur fyrir að slysið bar brátt að og hvorki flugmaðurinn né farþegarnir náðu að kalla eftir hjálp. Það voru símar farþeganna sem vísuðu á slysstaðinn þegar símafyrirtæki náði að rekja ferðir þeirra. Leitað verður á vatninu í dag og reynt að finna fólkið.
„Því hefur svæðisstjórn björgunarsveita hafist handa við að skipuleggja áframhaldandi leit í og við vatnið á morgun,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.
Fjörur voru gengnar þar í gær en leitin var árangurslaus þegar henni var hætt um klukkan 22 í gærkvöld.
Flugmaðurinn á að baki langan og farsælan feril og var þaulreyndur. Fjölskyldur farþeganna þriggja eru komnart til landsins.