Baráttuhópurinn Öfgar hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna viðtals sem birtist við Ingólf Þórarinsson, oftast kallaður Ingó veðurguð, í Stundinni nú um helgina. Þar svar Ingólfur af sér allar ásakanir og sagðist ekki sekur af þeim ávirðingum sem bornar hafi verið fram í hans garð. Ingólfur sagði frásagnirnar uppspuna og flökkusögur. Hann sagðist aldrei myndu gangast við þeim og að hann hafi ekki farið í naflaskoðun eða hugsað sér að breyta samskiptum sínum við konur.
Yfirlýsing Öfga í heild sinni:
Að gefnu tilefni.
Um helgina birtist viðtal við Ingólf Þórarinsson þar sem hann segist saklaus af öllum nafnvernduðum frásögnum Öfga.
Öfgar hafa aldrei, og munu aldrei, staðfest um hvaða tónlistarmann ræðir. Ingólfur hefur séð sjálfur um það að bendla sig við þessar frásagnir.
Hann sendi meðlimi okkar, Ólöfu Töru, kröfubréf fyrir vangaveltur áður en staðfest var hver færi með brekkusönginn eða komin dagskrá á Þjóðhátíð yfir höfuð. Þar bendlaði hann sjálfan sig við ummæli hennar sem meintur nauðgari.
Hann sendi annað kröfubréf á aktívista sem segir að þjóðþekktur tónlistamaður hafi nauðgað sér. Þar bendlaði hann sjálfan sig aftur sem meintan nauðgara.
Ingólfur hefur frá upphafi notað fjölmiðla til að hóta. Meðal annars hefur hann hótað að kæra nafnverndaðar frásagnir sem hann kannast samt sem áður ekkert við.
Um leið og Ingólfur bendlaði sjálfan sig við frásagnirnar fór fólk að segja sína reynslu af meintri hegðun hans. Vitneskja um meinta hegðun Ingólfs er hægt að finna víðsvegar á netinu, t.d. á bland þræði frá árinu 2009 og í sketch-þætti hjá Steinda frá sama ári.
Út frá samfélagslegu umræðunni sem varð í kjölfarið benti meðlimur okkar, Sindri Þór, á hversu siðferðislega rangt það sé að fullorðnir menn geti á bak við lögin riðið börnum.
Ingólfur sendi honum þá líka kröfubréf og stefndi honum fyrir meiðyrði.
Þessi hegðun bendir ekki til þess að hann sé reiðubúinn til að horfast í augu við það orð sem hann hefur á sér meðal almennings.
Ekki svo löngu áður en nafnverndaðar frásagnir Öfga birtust sagði Ingólfur í viðtali hjá öðrum meintum geranda að hann muni lítið frá þeim tíma sem hann drakk illa og notaði orðið minnisleysi.
Nokkrum dögum eftir að frásagnirnar birtust heldur hann því fram að hann viti hver hann er, hvað hann hafi gert og segir að frásagnirnar séu árás á sína persónu. Hvernig getur hann staðfest að hann viti hvað hann hefur gert þegar hann hefur lýst því yfir í viðtali að muna ekki margt vegna áfengisneyslu?
Ingólfur staðhæfir að einhver hafi sagt honum að þessar sögur hafi verið sendar til þess að athuga hvort að sögurnar yrðu birtar, þetta kallast gróusögur.
Við vitum sjálf hvernig frásagnir um einn þjóðþekktan tónlistarmann bárust okkur. Við vísum þessum rógburð því alfarið á bug.
Það er grafalvarlegt að einstaklingur ætli ekki í naflaskoðun eftir að hafa verið svo sannfærður um að svona alvarlegar ofbeldissögur sem varða margar hverjar á við hegningarlög séu um hann sjálfan.
Svo sannfærður að hann fer í drottingarviðtal, nýtir sér valdastöðu sína til að ógna og kærir fólk sem stendur með þolendum.
Við þekkjum öll þessa taktík.
Þetta er handrit meintra ofbeldismanna.
Öfgar; Þórhildur Gyða, Hulda Hrund, Helga Ben, Tanja Ísjförð, Ólöf Tara og Ninna Karla.