Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarstjórn Reykjavíkur, er ósátt við aðgerðarleysi stjórnvalda þegar kemur að barneignum í Covid faraldrinum og hlutverki feðra í ferlinu en Dóra á von á barni í vor með manni sínum, Sævari Ólafssyni.
„500 manns fara á viðburði en faðir ófædda barnsins míns fær ekki að koma með inn til ljósmóður til að heyra stöðuna, hvort það yfirleitt heyrist hjartsláttur frá barninu hans eða ræða fæðinguna. Á að bíða fyrir utan. Skiptir hlutverk feðra gjörsamlega engu máli? Er þetta grín?“ segir Dóra á Twitter síðu sinni.
Enn mega makar ekki koma með í skoðanir á Landsspítala, hvorki í sónar né mæðraskoðun. Einnig er foreldrum gert að mæta ekki saman með nýfædd börn í svokallaða 5 daga skoðun.
Í síðustu viku voru fjöldatakmarkanir rýmkaðar og mega nú 50 manns koma saman, í einka- eða opinberu rými en sú regla gildir ekki um fjölda á sitjandi viðburðum:
„Heimilt er að hafa allt að 500 manns í hólfi á sitjandi sviðslistarviðburðum og í útförum, í kvikmyndahúsum og leikhúsum“.