Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Útlitsdýrkun

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég er hávaxin og stórgerð kona. Ég var svo löng sem barn að ákveðið var að setja mig á meðferð sem hægði á ofvexti mínum. Ég var líka feitur krakki og fór í mína fyrstu megrun þegar ég var átta ára því ég heyrði fullorðna tala um hve stór og feit ég var.

Ég er og hef verið í ofþyngd í alltof langan tíma og mér leiðist það ægilega. Ég er meðvituð um að það þyki ekki heilsusamlegt að vera í yfirþyngd enda reynir það of mikið á liði og einstaklingum í yfirþyngd er hættara við hjartasjúkdómum, áunninni sykursýki og mörgum öðrum kvillum sem ég nenni ekki að þylja upp hér enda ekki heilbrigðisstarfsmaður.

Ég hef alveg verið grönn, en það er erfiðara fyrir mig að halda mér grannri en hitt. Ég hata þó að vera í yfirþyngd og hef ég prófað alls konar aðferðir við að grennast. Ég hef svelt mig, framkallað uppsölur, stundað líkamsrækt í óhófi, farið á jógúrtkúr, danskan kúr, drukkið megrunardrykki, farið á fundi hjá alls konar samtökum og meðferðaraðilum, hætt að borða sykur og önnur kolvetni í von um að verða ofurfyrirsætumjómjómjó. Þetta hefur alveg virkað, en eins og allir vita þá koma kíló hraðar en þau fara.

Ég hef líka farið hina áttina, ég hef borðað í laumi, ég hef stolið sælgæti því mig langaði ofsalega í og taldi mig deyja ef ég fengi ekki gotteríið, ég hef borðað á við þrjá fíleflda sjómenn án þess að hugsa mig tvisvar um, ég hef étið 16“ pítsu, drukkið kók og gúffað í mig blindfullan poka af blandípoka og margt verra. Nefndu það! Ég hef gert það.

Þegar ég var unglingur þá var ég skotin í sætum handboltamanni á Akureyri og ákvað að ég yrði að vera ofurgrönn svo hann tæki eftir mér. Megrunin var eftirfarandi: ég drakk einungis kókómjólk og vatn, át banana og mætti í líkamsrækt tvisvar á dag í von um að verða nógu grönn til að sæti strákurinn sæi mig. Ég náði settu þyngdarmarkmiði, varð ofurmegamjó, en hann tók ekkert eftir mér og unglingsveröld mín hrundi. Ég hélt þó áfram að svelta mig í von um að hljóta athygli frá öðrum strákum. Bilun! Algjör bilun!

Fyrir áratug eða svo greindist ég með sykursýki II og háþrýsting, sem er firra því ég var nánast (ég endurtek: nánast) barnung. Núna velti ég vöngum yfir því hvort ég væri heilbrigðari einstaklingur ef ég hefði ekki verið með þessa bannsettu útlitsþráhyggju frá unga aldri.

- Auglýsing -

Líf mitt hefur verið fitubarningur frá upphafi og sjálfsmynd mín í molum eftir því. Ég sé sífellt betur hvað það skiptir miklu máli að ræða útlit og þyngd af varkárni í kringum börn og unglinga. Ég biðla hér með til fullorðinna að kenna börnum að elska sjálfið eins og það er, kenna þeim að íþróttir eru frábærar en að ekki sé þörf á að verða framúrskarandi í þeim, heldur iðka þær sér til heilsubótar en ekki óbóta, og að fólk kenni ungviði þessa lands að matur er næring en ekki fíkniefni.

Annars er ég á því að ég er fædd í röngum líkama. Ég ætti að vera hefðarköttur sem fær nýsoðinn fisk og rjóma í öll mál, höfuðklór eftir hentugsemi, svefnfrið daginn út og inn og leikstundir þegar sú löngun skýtur upp kollinum.

Sara Blandon er meistarnemi við Listaháskóla Íslands, söngkennari og fyrrverandi Eyfirðingur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -