Í nótt var lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kölluð til vegna tilkynningar um líkamsárás. Lögregla varð að fjarlægja árásarmanninn og var hann vistaður í fangageymslu um sinn.
Tveir ökumenn voru stöðvaðir af lögreglu grunaðir um ölvun við akstur. Farið var með þá í blóðsýnatöku og þeir látnir lausir að henni lokinni.
Í gær stöðvaði lögregla ökumann á stolinni bifreið í Hlíðahverfinu í Reykjavík. Þegar leitað var á ökumanni kom í ljós að hann var með hníf á sér og eitthvað sem lögregla taldi næsta víst að væru fíkniefni. Viðkomandi var vistaður í fangageymslu lögreglu.
Lögregla var í gær kölluð til í Grafarholt vegna stórra grýlukerta sem prýddu þakskegg húss. Grýlukertin vöktu ugg hjá þeim sem tilkynnti og þóttu valda hættu. Lögregla tryggði því ástandið og bjó svo um hnúta að ekki stæði ógn af grýlukertunum.