Íbúi í Innri Njarðvík í Reykjanesbæ lenti í þeirri óskemmtilegu lífsreynslu að koma að innbrotsþjófi á heimili sínu. Hinn óboðni gestur var kominn hálfa leið inn um baðherbergisgluggann þegar húsráðanda bar að garði og hann náði að flýja.
Íbúinn vildi ekki tjá sig nánar við blaðamann þegar Mannlíf hafði samband við viðkomandi.
Lögreglan á Suðurnesjum staðfesti að vera með umrætt innbrot til rannsóknar en gaf ekki nánari upplýsingar um málið, sem er á frumstigi rannsóknar.
Í Facebookhópi íbúa var málið til umræðu. Þar er að finna annað innlegg, þar sem íbúi veltir fyrir sér skrýtnum ljósum sem hann sjái reglulega bregða fyrir á himninum. Annar íbúi Innri Njarðvíkur svarar því til að um sé að ræða dróna á vegum lögreglunnar á Suðurnesjum.
Síðustu misseri hefur drónaflug á Reykjanesi verið töluvert til umræðu meðal íbúa á svæðinu og þeir furðað sig á því og velt fyrir sér hverjir standi fyrir því. Ekkert hefur komið í ljós í þeim efnum.
Þegar blaðamaður Mannlífs spurðist fyrir um málið hjá lögreglunni á Suðurnesjum var því alfarið vísað á bug að lögreglan hafi nokkuð með þessa dróna að gera. Lögreglumaðurinn á vakt sagði að ef eitthvað slíkt væri á seyði myndi hann vita af því. Hann sagði jafnframt að hver sem er gæti orðið sér úti um dróna líkt og hvað sem er annað. Sérstakt leyfi rekstraraðila flugvalla þarf fyrir drónaflugi innan tveggja kílómetra frá svæðamörkum áætlunarflugvalla.
Það er því enn á huldu hvaða óprúttni aðili er að trufla íbúa Innri Njarðvíkur á kvöldin.