Mikill erill var hjá lögreglu í nótt, talsvert var um ölvun í miðbænum og áttu nokkrir leigubílstjórar í vandræðum með ofurölvi farþega. Lögregla var kölluð út til að aðstoða leigubílstjóra, bæði í miðbæ Reykjavíkur og í Breiðholti.
Þrír ökumenn voru handteknir undir áhrifum fíkniefna, tveir þeirra voru einnig réttindalausir.
Þá voru tveir menn handteknir í Breiðholti, grunaðir um framleiðslu fíkniefna í heimahúsi, lögregla lagði hald á efnin og allan búnað en mennirnir voru látnir lausir að skýrslutöku lokinni.
Umferðaróhapp var á Bíldshöfða um kvöldmatarleytið í gær, annar ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.