Fjárans veiran. ÍE, með Kára í broddi fylkingar, rétti þjóðinni og í raun öðrum þjóðum hjálparhönd þegar á þurfti að halda og skimaði fyrir veirunni og raðgreindi.
Kári er spurður hvernig málin standi á milli þeirra Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Það virðast hafa verið núningar á köflum en alltaf hefur þetta smollið saman.
„Það hefur aldrei verið núningur á milli okkar Þórólfs. Við höfum ekki alltaf haft nákvæmlega sömu skoðanir. Þegar verið er að takast á við fyrirbrigði sem er alveg nýtt í þessum heimi og þó að maður safni að sér öllum þeim forsendum sem til eru þá er hægt að komast að margs konar niðurstöðum. En skoðanir okkar hafa aldrei verið mjög ólíkar og þú mátt ekki gleyma því að ég get myndað mér skoðun og þar með er það búið. Þegar hann myndar sér skoðun þá hefur það afleiðingar fyrir samfélagið. Þannig að það er miklu erfiðara fyrir hann að taka afdrifaríkar ákvarðanir heldur en fyrir mig að mynda kraftmiklar skoðanir á því að nú eigum við að fara að aflétta og svo framvegis. Mér fannst fyrir svona rúmum mánuði að við hefðum átt að vera búin að aflétta öllum takmörkunum og mér fannst nokkuð ljóst svona strax um áramótin að þessi pest yrði búin í apríl. En ég get sagt þetta án þess að þurfa að svara fyrir það nokkurs staðar. Mér finnst Þórólfur hafa gert þetta á mjög skynsamlegan hátt. Hann hefur oft og tíðum orðið að standa uppréttur og brosandi milli steins og sleggju og hann hefur gert þetta vel. Hann er mikill séntílmaður og mér þykir alveg óendanlega vænt um Þórólf og mér finnst hann hafa staðið sig mjög vel. Auðvitað á tveggja ára tímabili þegar þú þarft raunverulega að vera að tjá þig opinberlega á hverjum einasta degi þá koma þau augnablik þar sem þú segir eitthvað sem þú vildir kannski ekki hafa sagt en í hans tilfelli þá er það mjög fágætt.“
Omikron-afbrigði veirunnar, sem veldur vægari einkennum en önnur, er allsráðandi og afléttingar voru boðaðar 11. febrúar: Sóttkví fellur niður og 200 mega koma saman. Verður þetta búið í apríl?
„Já.“
Hvað kemur svo?
„Svo kemur vorið, sauðburðurinn, slátturinn og allt sem því fylgir.“
Verður þetta gott sumar?
„Já, þetta verður gott sumar.“
Og við getum farið frjáls og grímulaus ferða okkar?
„Já, við getum farið frjáls og grímulaus ferða okkar og við getum farið upp í Borgarfjörð, upp að Rauðsgili og við getum látið okkur líða vel.“
Helgarviðtalið við Kára í heild sinni er að finna hér.